Ummæli hans koma í kjölfar þess að Rússlandsher gerði umfangsmikla árás á raforkukerfi Úkraínu á fimmtudag. Vladimír Pútín, forseti Rússlands sagði í þessari viku að yfirvöld í Moskvu ætluðu ekki að sýna árásargirni í garð ríkja Atlantshafsbandalagsins (NATO).
Hann bætti við að hugmyndir um að Rússar gerðu árás á Pólland, Eystrasaltsríkin eða Tékkland væru þvæla en öll eru ríkin hluti af NATO. Pútín sagði þó að ef kæmi til þess að Úkraína sendi F-16 herflugvélar frá flugvöllum í öðrum ríkjum myndu þau teljast „lögmæt skotmörk, sama hvar þau eru staðsett.“
Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu en nærri hundrað flugskeyti og drónar voru notuð í nýlegri árás Rússa á Úkraínu sem olli rafmagnstruflunum á vissum svæðum. Um er að ræða aðra árásina í röð þar sem Rússlandsher beitir miklum fjölda vopna á sama tíma til að yfirbuga úkraínskar varnir.
Vólódómír Selenskí, forseti Úkraínu hefur varað við því að árásir á vatnsaflsvirkjanir í landinu gætu leitt til stórvægilegs umhverfisslyss. Breska ríkisútvarpið hefur eftir borgarstjóra Kharkív, næst stærstu borg Úkraínu að raforkukerfið liggi undir alvarlegum skemmdum og það geti tekið tvo mánuði að koma því í samt horf. Á meðan eigi iðnaður erfitt uppdráttar og smærri fyrirtæki notist við rafstöðvar.
Tusk, forsætisráðherra Póllands kallar eftir auknum og umsvifalausum hergagnaflutningi til Úkraínu og varar við því að framgangur stríðsins næstu tvö árin muni ráða öllu. „Við lifum á þýðingamestu tímum frá endalokum seinni heimsstyrjaldarinnar.“