Veður

Gular við­varanir og slæmt ferða­veður á Vestur- og Norður­landi

Lovísa Arnardóttir skrifar
Holtavörðuheiði er lokuð eins og stendur en lokunin verður endurskoðuð á hádegi.
Holtavörðuheiði er lokuð eins og stendur en lokunin verður endurskoðuð á hádegi. Vísir/Atli

Gular viðvaranir eru í gildi á nær öllu vestan- og norðanverðu landinu. Þær renna út á Breiðafirði og Vestfjörðum á hádegi en ekki fyrr en á morgun á Norðvestur- og Norðurlandi. Slæm færð er á vegum um land allt og víða vegir lokaðir eða á óvissustigi. 

Þá er enn óvissustig í gildi á bæði Norður- og Vesturlandi vegna snjóflóðahættu. Á vef Veðurstofunnar kemur fram að ekki hafi verið metin hætta í byggð á Norðurlandi en hús voru rýmd á Vestfjörðum í gær. 

Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar í dag að áframhald verði á hríðarveðri á norðanverðu landinu. Þar verði norðanátt og allt að 15 til 20 metrar á sekúndu, snjókoma og vægt frost og lítið ferðaveður, einkum á fjallvegum.

Þar kemur einnig fram að sunnan heiða verði heldur hægari vindur, skýjað með köflum og hiti 2 til 8 stig. Eftir hádegi bætir í vind sunnan Vatnajökuls og verður þá norðvestan 18 til 23 metrar á sekúndu þar síðdegis. Varað er við því að aðstæður geti verið varhugaverðar fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Seint í kvöld og í nótt dregur svo úr vindi og ofankomu. Þá verður norðlæg átt og 8 til 15 metrar á sekúndu og skýjað með köflum á morgun, en dálítil snjókoma fram eftir degi norðaustantil. Frost 0 til 6 stig, en áfram frostlaust við suðurströndina.

Erfitt og slæmt ferðaveður

Hvað varðar færð um landið þá er hvöss norðlæg átt á fjallvegum um norðanvert landið og erfið akstursskilyrði vegna blindu í snjókomu. Skafrenningur er á fjallvegum um allt norðanvert landið í dag. Þá er einnig mjög hvasst og líkur á hviðum um 35 metra á sekúndu frá Öræfum og austur til Hafnar.

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að lokað er um Fróðárheiði, Svínadal og Holtavörðuheiði á Vesturlandi. Á Vestfjörðum er einnig víða lokað vegna veðurs og er einnig óvissustig víða vegna snjóflóðahættu. Það sama gildir um Norðurland og Norðausturland. Þar eru vegir á óvissustigi og er varað við því að þeir geti lokað með stuttum fyrirvara.

Á Austurlandi er Fjarðarheiði ófær en verið er að moka og eystra Vatnsskarð á óvissustigi. Á Suðausturlandi er mikið af holum á vegi og hálka á Suðurlandi.

Best er að athuga stöðu veðurs og færðar hjá Veðurstofu og Vegagerð áður en haldið er út. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Minnkandi norðlæg átt, 5-13 m/s síðdegis. Él á Norður- og Austurlandi, annars þurrt að mestu. Frost 0 til 7 stig, en frostlaust syðst.

Á sunnudag:

Norðaustlæg átt 5-13 og stöku él sums staðar. Frost 1 til 9 stig, en hiti um eða yfir frostmarki sunnanlands.

Á mánudag:

Norðlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s, skýjað með köflum og stöku él á víð og dreif. Frost 0 til 12 stig, mildast syðst.

Á þriðjudag:

Vaxandi suðaustanátt með dálítilli snjókomu eða slyddu og hita í kringum frostmark sunnantil. Hægari vindur, bjart með köflum og frost 2 til 8 stig í öðrum landshlutum.

Á miðvikudag:

Austlæg átt og slydda eða rigning, en bjartviðri norðantil.

Á fimmtudag:

Útlit fyrir austlæga átt með stöku él suðaustantil, en annars að mestu bjart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×