Sport

Dómarinn gerði ekki mis­tök í lokin á Liverpool-City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexis Mac Allister liggur í grasinu eftir tæklinguna frá Jérémy Doku.
Alexis Mac Allister liggur í grasinu eftir tæklinguna frá Jérémy Doku. Getty/Robbie Jay Barratt

Yfirmaður dómaranna í ensku úrvalsdeildinni segir að tækling Jérémy Doku á Alexis Mac Allister á lokasekúndum Liverpool og Manchester City hafi verið lögleg.

Howard Webb hefur nú tjáð sig um frammistöðu dómarans á þessum umdeildu lokasekúndum leiksins en úrslit hans gæti gert útslagið í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn í vor.

Liverpool stuðningsmenn sem og knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp voru æfir yfir því að Doku væri ekki refsað fyrir það að fara með takkana í brjóstkassa Mac Allister. Atvikið gerðist innan vítateigs, í stöðunni 1-1 og rétt áður en leikurinn var flautaður af.

Webb fór yfir málið í hinum reglubunda VAR-þætti þar sem er farið yfir þá dóma sem myndbandsdómarar hafa tekið fyrir.

Webb segir samt að ef dómarinn hefði dæmt víti þá hefði því ekki verið breytt. Þetta var því dæmi um dóm sem er réttur hvorum megin við línuna sem hann endaði.

„Ef dómarinn hefði dæmt þetta á vellinum þá hefði Varsjáin staðfest þann dóm og alveg eins ef hann hefði ekki dæmt það,“ sagði Howard Webb.

„Við heyrum í Michael Oliver sem segir að boltinn hafi verið á milli manna sem voru að fara í tæklingu. Boltinn er of lágt til að skalla hann. Doku lyftir fætinum til að sparka í boltann og hann kemur við boltann,“ sagði Webb.

„Já hann kemur aðeins við MacAllister líka. Mac Allister kemur inn í hann og hann nær ekki að fara í boltann. Ég skil samt vel að menn séu ósammála um þennan dóm,“ sagði Webb.

„Varsjáin á ekki að breyta hlutum nema að það séu góðar sannanir fyrir þeim breytingum. Þú verður að vera alveg viss að þú sért að breyta rétt. Oft hafa menn ekki nægar sannanir til að breyta eða sjá hlutina nægilega vel til að dæma,“ sagði Webb.

„Augljóslega var Michael [Oliver] í þeirri stöðu þarna. Svo fer Varsjáin að skoða þetta og sér heldur ekki þetta skýrt eða skorinort. Þarna er atvik sem kallar á huglægt mat og Varsjáin heldur sig frá slíku. Menn eru klofnir í afstöðu sinni til þessa dóms,“ sagði Webb.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×