Forseti Úkraínu heitir því að herða drónaárásir eftir eldflaugaárás Rússa á úkraínsku borgina Odessa í gær. Úkraínumenn hafa þegar svarað fyrir sig með mannskæðri árás. Skemmdarverk sem framin hafa verið á kjörstöðum í Rússlandi, gætu reynst dýrkeypt.
Þá tökum við stöðuna á Gasa, þar sem neyðin versnar með hverjum deginum. Hjálpargögn bárust í fyrsta sinn sjóleiðina til Gasa í gær en samkvæmt nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna er eitt af hverjum þremur börnum á svæðinu alvarlega vannært.
Við förum einnig til Ísafjarðar, þar sem allt stefnir í metsumar í komum skemmtiferðaskipa. Bæjarstjóri segir unnið að því að tryggja að innviðir þoli álagið. Loks verðum við í beinni útsendingu frá miðbæ Reykjavíkur, þar sem Íslandsmeistaramót í skeggvexti fer fram í kvöld.
Þetta og margt fleira, með þéttum sportpakka að auki, í kvöldfréttum klukkan 18:30.