Fótbolti

Coventry fyrst í undan­úr­slit eftir ó­trú­lega endur­komu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Coventry tryggði sér sæti í undanúrslitum FA-bikarsins á ótrúlegan hátt í dag.
Coventry tryggði sér sæti í undanúrslitum FA-bikarsins á ótrúlegan hátt í dag. Marc Atkins/Getty Images

B-deildarlið Coventry varð í dag fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar er liðið vann 2-3 endurkomusigur gegn úrvalsdeildarliði Wolves.

Eins og við var að búast voru heimamenn í Wolves sterkari aðilinn framan af leik, en gestirnir í Coventry náðu þó að skapa sér nokkur ákjósanleg færi í fyrri hálfleik. Þrátt fyrir það tókst hvorugu liðinu að finna netmöskvana fyrir hlé og því var staðan enn 0-0 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Síðari hálfleikur var svo ekki nema um átta mínútna gamall þegar gestirnir í Coventry náðu að brjóta ísinn með marki frá Ellis Simms eftir undirbúning Liam Kitching. Gestirnir fengu fleiri færi til að tvöfalda forystuna, en náðu ekki að nýta þau færi sem þeir sköpuðu sér.

Þess í stað jafnaði Alsíringurinn Rayan Ait-Nouri metin fyrir heimamenn á 84. mínútu eftir vandræðagang í vörn gestanna og fjórum mínútum síðar var hann aftur á ferðinni þegar hann lagði upp annað mark liðsins fyrir varamanninn Hugo Bueno.

Gestirnir frá Coventry gáfust þó ekki upp og á sjöundu mínútu uppbótartíma tókst Ellis Simms að jafna metin með sínu öðru marki og því leit út fyrir að framlenging væri framundan.

B-deildarliðið hafði þó engan áhuga á því að fara í framlengingu og á tíundu mínínútu uppbótartíma, þegar tæplega tvær mínútur voru síðan uppgefinn uppbótartími var liðinn, tryggði Haji Wright gestunum ótrúlegan 2-3 sigur með fallegu marki eftir stoðsendingu frá Ellis Simms.

Niðurstaðan því 2-3 sigur Coventry sem er á leið í undanúrslit FA-bikarsins á Wembley, en úrvalsdeildarliðið Wolves situr eftir með sárt ennið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×