Níu eru enn með stöðu sakbornings í rannsókn lögreglu á málum Davíðs Viðarssonar, áður Quang Le. Sex eru í gæsluvarðhaldi, það eru Davíð sjálfur, kærasta hans, bróðir, mágkona og bókarinn hans. Hingað til hefur ekki verið ljóst hver sjötti einstaklingurinn er en samkvæmt heimildum fréttastofu er það faðir bókarans.
Þrír eru með stöðu sakbornings en ekki í gæsluvarðhaldi, það eru foreldrar Davíðs og svo íslenskur viðskiptafélagi hans, Kristján Ólafur Sigríðarson, fyrrverandi eigandi veitingastaðakeðjunnar Wokon.
Hótað brottvísun
Lögreglu hefur gengið vel að ræða við meinta þolendur mansalsins en þeir eru á þriðja tug. ASÍ hefur einnig komið að því að ræða við þolendurna, til að mynda um hvert framhaldið er.
„Þau höfðu verið beitt, eins og er gjarnan í þessum málum, hótunum um að vera brottvísað ef þau leituðu sér aðstoðar. Þannig það er alveg klárt að það var ótti,“ segir Saga Kjartansdóttir, verkefnisstjóri vinnustaðaeftirlits hjá ASÍ.

Einhver matar þolendurna með röngum upplýsingum
Hún segir að vitað sé að þolendurnir hafi fengið rangar upplýsingar um stöðu þeirra hér á landi á meðan þeir störfuðu fyrir Davíð. Og á meðan ASÍ reynir að leiðrétta það þá virðist einhver halda áfram að mata fólkið með röngum upplýsingum.
Eru einhverjar vísbendingar um að þeir sem eru í gæsluvarðhaldi eða hafa stöðu sakbornings hafi reynt að hafa samband við þolendurna eftir aðgerðirnar í síðustu viku?
Við vitum það ekki en við útilokum það alls ekki. Það er ekki ólíklegt að það séu einhverjir aðilar að reyna að hafa áhrif á þau og hvað þau gera næst,“ segir Saga. „Við getum bara sagt það að þau eru að fá ónákvæmar upplýsingar einhversstaðar frá, ég get kannski ekki sagt meira en það.“
Systir Kristjáns með veð í Herkastalanum
Frá stóru aðgerðinni fyrir einni og hálfri viku síðan hefur ekki verið ráðist í frekari aðgerðir, fyrir utan það að lögreglan hefur kyrrsett Herkastalann sem Davíð keypti árið 2022, fryst bankareikninga og kyrrsett fleiri fjármuni.
Lögreglan er með 189 milljón króna veð í kastalanum en systir Kristjáns Ólafs er einnig með 360 milljón króna veð í honum í formi tryggingarbréfs. Þau viðskipti voru framkvæmd örfáum dögum eftir aðgerð heilbrigðiseftirlitsins í matvælalager Davíðs í Sóltúni í lok september á síðasta ári.