Rex Heuermann var handtekinn í fyrra og ákærður fyrir að hafa myrt Melissu Barthelemy, Megan Waterman og Amber Costello. Þá var hann einnig ákærður fyrir morðið á Maureen Brainard-Barnes í janúar síðastliðnum.
Ása sótti um skilnað eftir að Heuermann var handtekinn en lögmenn hennar segja hana heimsækja Heuermann í fangelsið í hverri viku. Hún trúi því ekki að hann geti hafa framið þá glæpi sem hann hefur verið sakaður um.
Í yfirlýsingu Ásu segist hún finna til með fórnarlömbunum og fjölskyldum þeirra og að enginn eigi skilið að deyja með þeim hætti sem konurnar gerðu.
„Ég mun hlusta á öll sönnunargögnin og bíða með að fella dóm þar til réttarhöldunum lýkur,“ segir í yfirlýsingunni. „Ég ætla að leyfa Rex að njóta vafans, eins og við verðskuldum öll.“
Lík kvennanna fjögurra fundust árið 2010, grafin meðfram Ocean Parkway nærri Gilgo Beach á Long Island í New York. Allar voru kynlífsstarfsmenn sem höfðu horfið á árunum 2007 til 2010.