„Það er frekar jafnt eftir aldri, en yngstu og elstu standa sig best,“ segir Jónas Magnússon sérfræðingur í fag- og fræðslumálum hjá Skattinum.
Hæst er hlutfallið í aldurshópi 86 til 95 ára en 68,9 prósent þeirra eru búin að skila. Af þeim sem eru 16 til 25 ára eru 67,9 prósent búin að skila. Lægst er hlutfallið hjá aldurshópi 46 til 55 ára en 58,7 prósent þeirra eru búin að skila.
Hann segir að mjög hafi fjölgað í gærkvöldi og það hafi haldið áfram í dag. Í gær voru 56 prósent búin að skila en 63 prósent í morgun. Hann á von á því að mikil fjölgun verði í dag og í kvöld en búist er við fleiri framtölum en nokkru sinni fyrr því töluverð fjölgun hefur verið á skrá á milli ára.
Mikil fjölgun á milli ára
Í fyrra áttu alls að skila 332 þúsund en í ár eru það 343 þúsund og er því fjölgun um 12 þúsund einstaklinga á skrá. Skatturinn á von á því að allt að 75 prósent verði búin að skila á morgun. Skilin voru í gær betri en þau voru á sama tíma fyrir ári síðan.
„Fyrir flesta er þetta auðvelt verk. Það er allt forskráð og segir sig nánast sjálf,“ segir Jónas og að helst hafi fólk verið að lenda í vandræðum hafi það verið í hlutabréfakaupum. Því hafi verið gerðar sérstakar leiðbeiningar um það sem hægt er að kynna sér hér. Þar eru einnig leiðbeiningar fyrir þau sem hafa verið í verktakavinnu.

En hafi fólk einhverjar spurningar um skil framtalsins er hægt að leita til Skattsins og fá leiðbeiningar. Hægt er að senda email á framtal@skatturinn.is, tala við spjallmenni eða hringja í síma 442-1414 til klukkan 15.30 í dag.
Jónas segir að mikið hafi verið hringt síðustu daga en alls hefur Skatturinn tekið við um þrettán þúsund símtölum síðasta mánuðinn vegna framtalsskilanna.
„Það er mikið spurt um hlutabréfakaup en líka um ívilnanir vegna barna á framhaldsskólaaldri og um verktakatekjurnar.“
Vesen að skila ekki á réttum tíma
„Við höldum áfram að veita framtalsaðstoð fram í næstu viku. Ef þú getur ekki skilað í dag þá er mikilvægt að skila eins fljótt og fólk getur,“ segir Jónas en tekur þó skýrt fram að ef fólk skilar ekki á næstu dögum geti það lent í því að fá áætlun.
„Það er aðallega bara vesen. Þá getur fólk lent í skuld og þarf að borga inn á það á meðan það bíður eftir raunverulegri niðurstöðu. Það er því best að skila á réttum tíma til að forðast það,“ segir Jónas og að fólk geti þá þurft að bíða þar til í haust með að fá niðurstöðu í sín mál.
„Það er best að drífa þetta af. Þetta er auðvelt og þetta er gaman,“ segir Jónas.
Þegar fólk er búið að skila inn framtalinu þá fær það bráðabirgðaútreikning á sinni álagningu sem Jónas segir að standist yfirleitt. Lokaniðurstaðan liggur þó ekki fyrir fyrr en í lok maí.
„Margir fá bráðabirgðaútreikning, og hjá flestum sem eru með einföld framtöl, er hann nokkuð áreiðanlegur.“