Á vef Veðurstofunnar segir að það verði él fyrir norðan, slydda eða rigning austanlands en yfirleitt bjart suðvestantil.
Hiti verður á bilinu núll til átta stig að deginum og mildast syðst.
„Á morgun dregur úr vindi og úrkomu, sums staðar lítilsháttar él og fremur hæg norðaustlæg átt annað kvöld. Þá kólnar í veðri, frost 1 til 7 stig fyrir norðan, en hiti 0 til 4 stig sunnanlands,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Norðan og norðaustan 5-15 m/s, hvassast suðaustantil. Lítilsháttar él norðaustanlands, annars úrkomulítið en fer að snjóa suðvestantil um kvöldið. Frost 2 til 8 stig, en frostlaust syðst.
Á föstudag: Suðaustan 5-13, hvassast suðvestantil, og snjókoma eða slydda, en bjart með köflum fyrir austan. Hiti breytist lítið.
Á laugardag: Suðaustlæg átt 5-13, og slydda eða rigning, en úrkomuminna um landið norðaustanvert. Hiti 0 til 5 stig að deginum. Snýst í norðaustan 10-15 á Vestfjörðum um kvöldið og kólnar í veðri.
Á sunnudag: Gengur í norðaustan 10-18 norðan- og vestantil með snjókomu. Frost 0 til 8 stig. Annars hægari vindur með slyddu eða rigningu, hiti um eða yfir frostmarki.
Á mánudag og þriðjudag: Útlit fyrir ákveðna norðlæga átt með snjókomu, einkum norðan heiða, en úrkomuminna vestanlands. Kólnar í veðri.