Handbolti

Ó­létt Sandra fagnaði stórum titli

Sindri Sverrisson skrifar
Sandra Erlingsdóttir með bikarinn góða eftir að hafa orðið þýskur bikarmeistari um helgina.
Sandra Erlingsdóttir með bikarinn góða eftir að hafa orðið þýskur bikarmeistari um helgina. Instagram/@sandraerlings

Sandra Erlingsdóttir varð um helgina þýskur bikarmeistari í handbolta, með TuS Metzingen, og er aðeins önnur íslenska handboltakonan til að afreka það.

Sandra gat ekki tekið þátt í úrslitahelginni að þessu sinni því hún er ólétt. Það kom í ljós á heimsmeistaramótinu í Noregi undir lok síðasta árs, og hefur Sandra því ekki spilað með Metzingen eftir áramót þó að hún hafi æft með liðinu eins og hægt er.

Þetta er fyrsti titill Metzingen en liðið vann Oldenburg í undanúrslitum eftir framlengingu, 31-30, og svo Bietigheim í úrslitaleik, 30-28, og fylgdist Sandra spennt með á meðal stuðningsmanna í höllinni. Bietigheim hafði unnið titilinn þrjú síðustu ár í röð.

„Öðruvísi úrslitahelgi hjá mér þetta árið en VÁ hvað ég er óendanlega stolt af því að tilheyra þessu liði,“ skrifaði Sandra í færslu á Instagram.

Handboltasérfræðingurinn Ívar Benediktsson bendir á það á handbolti.is, að Sandra sé eftir því sem næst verður komist aðeins önnur íslenska handboltakonan til að verða þýskur bikarmeistari. Það hafi Kristbjörg Magnúsdóttir afrekað fyrst, fyrir 47 árum, þegar hún vann bikarinn með Eintracht Minden. Kristbjörg varð einnig Þýskalandsmeistari í tvígang með liðinu og því hefur engin önnur íslensk handboltakona náð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×