Verkefnið „Allir með“ er samstarfsverkefni ÍSÍ, UMFÍ og ÍF, sem er íþróttasamband fatlaðra. Um er að ræða þriggja ára verkefni. Valdimar Smári Gunnarsson er verkefnisstjóri „Allir með“ og veit því manna best um hvað það snýst.
„Verkefnið „Allir með“ snýst um það að fjölga tækifærum fyrir fötluð börn innan íþróttahreyfingarinnar. Við ætlum að fara að því með því að fá íþróttafélögin til þess að bjóða upp á þjálfun fyrir fötluð börn og hvetja þau til þess að byrja og hefja starf, sem er ætlað fyrir þessa hópa,“ segir Valdimar Smári.
Níu verkefni um allt land í átakinu „Allir með“ eru farin eða eru að fara af stað og var fyrsti samningurinn þess efnis undirritaður á Selfossi við Suðra nýlega en það er félag, sem sér um íþróttir fyrir fatlaða á Suðurlandi .
En hvað með fatlaða, eru þeir að stunda mikið íþróttir eða ekki ?
„Því miður þá er þátttaka fatlaðra barna innan íþróttahreyfingarinnar mjög lítil því það eru einungis fjögur prósent fatlaðra barna af þrjú þúsund, sem eru 17 ára og yngri á Íslandi, það eruð aðeins fjögur prósent af þeim hópi að starfa innan íþróttahreyfingarinnar. Þessu viljum við breyta og ætlum að breyta,“ bætir Valdimar Smári við.
Anna Hjálmarsdóttir, sem er amma tveggja fatlaðra drengja á Selfossi fagnar verkefninu „Allir með” en hún fer með þeim á allar æfingar og hvetur þá áfram í sínum íþróttum.

„Og þetta er bara búið að ýta þeim af stað og þeir mæta bara á allar æfingar. Annar er farin að æfa líka boccia tvisvar í viku, ásam því að fara í íþróttahúsið á sunnudögum, þannig að þetta er bara frábært, það er bara beðið eftir hverri æfingu. Svo er fótboltinn að fara af stað með að bjóða þeim á æfingar, þannig að þetta bara hljómar vel,” segir Anna.

Þannig að þið eruð alveg í skýjunum?
„Já, við erum það, þetta er bara æðislegt. Ég er með á hverja einustu æfingu og þetta er bara æðislegt,” segir Anna amma á Selfossi.
