Fyrsti sigur Hamars á tímabilinu kom gegn Breiðablik í Frystikistunni í Hveragerði síðastliðinn fimmtudag þegar liðið vann 13 stiga sigur, 104-91. Þessi fyrsti sigur kom í 19. umferð deildarkeppninnar, fjórðu síðustu umferð tímabilsins.
Það sem meira er að þetta var fyrsti sigur Hamars í efstu deild frá árinu 2011. Liðið var án sigurs í efstu deild í 12 ár, 11 mánuði og 26 daga.
Þrátt fyrir slakt gengi á tímabilinu hefur stuðningssveit Hamars staðið sína plikt í allan vetur. Meðlimir sveitarinnar fóru því alla leið í fagnaðarlátunum þegar sigurinn var í höfn og sprengdu meðal annars flugelda fyrir utan íþróttahúsið í Hveragerði. Virtist þar engu máli skipta þó lögreglubíll væri í næsta nágrenni og að óheimilt sé að sprengja flugelda á þessum tíma árs.
Í lok umræðunnar um sigur Hamars fóru drengirnir í Körfuboltakvöldi yfir ýmislegt sem átti við í heiminum síðast þegar Hamar vann leik í efstu deild. Í því samhengi má meðal annars nefna að síðast þegar Hamar vann leik í efstu deild hafði Ísland aldrei farið á Eurobasket, LeBron James hafði aldrei orðið meistari í NBA og nýjasti snjallsíminn var iPhone 4, en innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.