Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, í stuttu samtali við fréttastofu. Hann vildi ekki veita frekari upplýsingar um málið.
Davíð er eigandi átta fyrirtækja og í gegnum þessi fyrirtæki sér hann um rekstur fimm veitingastaða Pho Vietnam, níu veitingastaða Wokon, svo í það minnsta tveggja gistiheimila, Kastali Guesthouse og Reykjavík Downtown Hotel. Davíð er ættaður frá Víetnam líkt og allir þeir sem eru í gæsluvarðhaldi.
Aðgerðirnar voru afar umsvifamiklar og náðu til nokkurra landshluta. Um áttatíu einstaklingar komu að aðgerðunum frá hinum ýmsu stofnunum, til að mynda Tollgæslunni, Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun, ASÍ, velferðarsviði Reykjavíkurborgar, barnaverndaryfirvöldum í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, félagsþjónustunni í Kópavogi og Hafnarfirði, heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og Bjarkarhlíð.
Samkvæmt heimildum fréttastofu er grunur um að Davíð hafi aðstoðað fólk við að koma hingað til lands frá Víetnam með sérfræðingaleyfum frá Vinnumálastofnun. Fólkið greiddi Davíð háar upphæðir fyrir aðstoðina, allt að átta milljónir króna.
Fjöldi meintra fórnarlamba hleypur á tugum og á málið sér nokkra ára sögu. Lögreglan hafði verið með starfsemi Davíðs og hans fyrirtækja til skoðunar í nokkur ár. Þá var lagt hald á fjármuni við húsleit á mörgum stöðum í gær og í skoðun er að frysta eignir.
Upphaflega kom fram í þessari frétt að Davíð sæi enn um rekstur Vietnam Market en það er ekki rétt og hefur það verið leiðrétt.