Handbolti

Viktor Gísli og Orri Freyr með stór­leiki en tíu mörk Óðins dugðu ekki til

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson fór á kostum í marki Nantes í kvöld.
Viktor Gísli Hallgrímsson fór á kostum í marki Nantes í kvöld. Uros Hocevar/Kolektiff Images/DeFodi Images via Getty Images

Viktor Gísli Hallgrímsson og Orri Freyr Þorkelsson áttu báðir stórleiki fyrir lið sín í sigrum í Evrópudeildinni í handbolta í kvöld. 

Orri Freyr og félagar hans í Sporting unnu sterkan fjögurra marka sigur er liðið tók á móti þýska stórliðinu Füchse Berlin í kvöld, 32-28. Þetta var í annað sinn á einni viku sem Sporting vinnur Berlínarliðið, en Sporting vann eins marks sigur í Þýskalandi fyrir viku síðan, 31-32.

Orri Freyr átti stórleik fyrir Sporting í kvöld og skoraði átta mörk úr níu skotum, en liðið trónir nú eitt á toppi riðils 4 með átta stig eftir fimm leiki, tveimur stigum meira en Füchse Berlin sem situr í öðru sæti.

Þá átti landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson gott kvöld fyrir Nantes er liðið vann níu marka sigur gegn Zabrze í riðli 1, 22-31. Viktor varði 15 skot í marki Nantes og var með rúmlega 45 prósent hlutfallsvörslu. 

Í sama riðli unnu Ýmir Örn Gíslason og félagar hans í Rhein-Neckar Löwen átta marka sigur gegn Hannover-Burgdorf, 24-32. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf, en Ýmir komst ekki á blað fyrir gestina.

Nantes trónir á toppi riðilsins með átta stig eftir fimm leiki og Rhein-Neckar Löwen fylgir fast á hæla þeirra með sex stig. Hannover-Burgdorf situr í þriðja sæti með fjögur stig og Zabrze rekur lestina með tvö stig.

Þá máttu Óðinn Þór Ríkharðsson og félagar hans í Kadetten Schaffhausen þola svekkjandi eins marks tap, 33-34, gegn Bjerringbro/Silkeborg í riðli 3. Óðinn skoraði tíu mörk fyrir Kadetten sem situr í þriðja sæti riðilsins með fjögur stig, en í sama riðli skoraði Teitur Örn Einarsson fjögur mörk fyrir topplið Flensburg sem vann tólf marka sigur gegn Vojvodina, 42-30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×