Það var púað á þessa tuttugu ára sundkonu á pallinum.
„Ég er stolt af því að keppa fyrir hönd þjóðar minnar,“ sagði Anastasia Gorbenko eftir athöfnina. Aftonbladet segir frá.

Þetta voru einu verðlaun Ísraelsmanna á mótinu. Silfrið vann Anastasia í 400 metra fjórsundi.
Það var ekki aðeins púað á hana á pallinum heldur einnig þegar hún var í viðtölum.
„Ég er að gera þetta fyrir Ísrael og ég er stolt af því. Ef einhverjum líkar það ekki þá er það ekki mitt vandamál,“ sagði Anastasia.
Stríðið milli Ísraels og Hamas-samtakanna hefur staðið yfir síðan í október. Gorbenko var með öryggisvörð með sér í viðtalsherberginu en hún hugsaði aldrei um að hætta við þátttöku á mótinu.
„Nei, ég hef lagt mikið á mig til að ná í þessi verðlaun og ég á skilið að standa á verðlaunapallinum. Þetta er ekki eitthvað sem ég vil gefa frá mér af því einhverjir litlir krakkar vilji púa,“ sagði Anastasia.
„Þetta eru bara íþróttir og mér finnst að það eigi ekki að blanda íþróttum og pólitík saman,“ sagði Anastasia.