Fótbolti

Aron skoraði tvö í öruggum sigri Blika

Smári Jökull Jónsson skrifar
Aron Bjarnason er kominn heim og í lið Breiðabliks.
Aron Bjarnason er kominn heim og í lið Breiðabliks. Vísir/Sigurjón

Breiðablik vann 4-0 sigur á Grindavík þegar liðin mættust í Lengjubikar karla í dag. Aron Bjarnason sem Breiðablik fékk fyrir tímabilið var á skotskónum í dag.

Leikurinn í dag fór fram á Kópavogsvelli og Aron Bjarnason var ekki lengi að koma Breiðablik yfir en hann skoraði fyrsta mark leiksins á 10. mínútu. Skömmu síðar þurfti Aron Dagur Birnuson markvörður Grindavíkur að fara af velli og Dagur Örn Fjeldsted, sem var á láni hjá Grindavík á síðustu leiktíð, bætti öðru marki við á 23. mínútu.

Staðan í hálfleik 2-0 en Breiðablik var búið að ganga frá leiknum þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Aron og Dagur Örn voru þá búnir að bæta við tveimur mörkum til viðbótar og staðan orðin 4-0.

Það urðu lokatölur leiksins og Breiðablik því komið á blað í Lengjubikarnum en liðið tapaði gegn FH í fyrstu umferðinni. Grindavík er með þrjú stig líkt og Blikar eftir sigur á Gróttu um síðustu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×