Gummersbach var í 8. sæti fyrir leikinn í dag en liðið tapaði gegn Hannover-Burgdorf í vikunni. Eisenach var í næst neðsta sæti deildarinnar og því búist við sigri Gummersbach undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar.
Leikurinn í dag var spennandi. Heimamenn í Eisenach voru skrefinu á undan lengst af í fyrri hálfleik en undir lok hans náði Gummersbach að komast yfir og leiddi 15-14 í hálfleik.
Þetta virtist gefa gestunum byr undir báða vængi. Gummersbach náði fjögurra marka forskoti í byrjun seinni hálfleiks og hélt frumkvæðinu. Heimamenn náðu að minnka muninn í eitt mark en tókst aldrei að jafna metin í síðari hálfleiknum.
Gummersbach vann að lokum 26-24 og lyftir sér upp í 7. sætið með sigrinum. Elliði Snær Viðarsson skoraði eitt mark fyrir Gummersbach í dag auk þess að leika stórt hlutverk í vörn liðsins.