„Þeir létu sig hverfa og það þurfti að hefja leit að þessum hópi,“ segir Úlfar í samtali við Vísi.
Heldur þungt var í lögreglustjóranum vegna þessa máls. Hann sagði þetta atvik umhugsunarefni fyrir þá sem stjórni Ríkisútvarpinu. Því annars hafi samstarf yfirvalda við fjölmiðla verið gott.
„Við þekkjum þetta atvik starfsmanns RÚV sem barði hús að utan og leitaði þá að lykli, og svo þetta núna,“ segir Úlfar. En hann er þar að vísa til þess þegar ljósmyndari Ríkisútvarpsins leitaði inngöngu í autt hús í Grindavík og olli það verulegu uppnámi.
Úlfar nefnir að það sé starfsmaður Ríkisútvarpsins sem stýrir Blaðamannafélaginu. En þess ber að geta að Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður BÍ er í launalausu leyfi frá RÚV nú um stundir.
„Hún hefur sýnt sig í að vera svolítið frek. En þetta eru frávik. Við áttum ekki von á þessu og þetta er vanvirða við íbúa Grindavíkur, þá 3800 íbúar sem þarna áttu heimili, hafa virt þessi fyrirmæli okkar, þó ekki séu kannski allir sammála um aðferðafræðina. Þannig að þetta kemur mér og mínu fólki á óvart.“
Frekjutónn í fréttastjóra RÚV
Úlfar segir einsýnt að þessi svívirða skemmi fyrir, eins og atvikið með starfsmann Ríkisútvarpið gerði á sínum tíma og nú þetta.
„Þetta skemmir fyrir öðru fjölmiðlafólki. Óneitanlega. Í því tilfelli hafði það atvik gríðarlega neikvæð áhrif inn í samfélag Grindvíkinga og aðrir fjölmiðlamenn voru miður sín vegna þessa, það er klárt og svo þetta núna.“
Þá segir Úlfar leiðinlegur frekjutónninn sem ávallt megi greina í fréttastjóra Ríkisútvarpsins og þeim sem stýra aðgerðum af hálfu RÚV í samtölum við lögreglustjóra.
„Aðgangur er alltaf að opnast meira og meira og ég þarf fyrst og síðast að hugsa hlýtt til þessara 3800 íbúar Grindavíkur; ég þarf að hlusta á viðbrögð þeirra. Það vantar ekkert uppá heimildaöflun, að þetta sé „dokkjúmentað“, nema kannski grátandi Grindvíkinga,“ segir Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Blaðamannafélag Íslands sendi lögreglustjóranum á Suðurnesjum fyrir helgi ítrekun á kvörtun félagsins frá því í nóvember vegna takmörkunar á aðgengi fjölmiðla að hættusvæði í og umhverfis Grindavík.