Handbolti

Mikil­vægur sigur Stjörnumanna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Egill Magnússon skoraði sjö mörk fyrir Stjörnuna.
Egill Magnússon skoraði sjö mörk fyrir Stjörnuna. Vísir/Daníel Þór

Stjarnan vann mikilvægan sex marka sigur er liðið heimsótti Gróttu í Olís-deild karla í handbolta í kvöld, 21-27.

Fyrir leikinn sátu liðin í sjöunda og tíunda sæti deildarinnar, Grótta með tíu stig og Stjarnan með níu. Bæði lið þurftu því á sigri að halda til að slíta sig almennilega frá fallsvæðinu.

Jafnræði var með liðunum framan af leik og lítið sem virtist geta skilið þau að. Stjörnumenn náðu þó tveggja marka forystu undir lok fyrri hálfleiks og leiddu 12-14 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Stjarnan byrjaði svo síðari hálfleikinn betur og náði fljótt fjögurra marka forskoti. Gestirnir litu aldrei um öxl eftir það og unnu að lokum sex marka sigur, 21-27.

Pétur Árni Hauksson og Egill Magnússon drógu vagninn fyrir Stjörnumenn og skoruðu sjö mörk hvor. Liðið situr nú í sjöunda sæti Olís-deildarinnar með 11 stig eftir 14 leiki, einu stigi meira en Grótta sem situr í áttunda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×