Fótbolti

Segir fót­bolt­á­huga­fólk í Banda­ríkjunum ekki hafa mikið vit á í­þróttinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lindsey Horan gefur ekki mikið fyrir knattspyrnuþekkingu landa sinna.
Lindsey Horan gefur ekki mikið fyrir knattspyrnuþekkingu landa sinna. Getty/Carmen Mandato

Lindsey Horan, fyrirliði bandaríska kvennalandsliðsins, hefur ekki mikla trú á knattspyrnuþekkingu margra stuðningsmanna landsliðsins.

Hún segir að stuðningsfólk liðsins skorti hreinlega þekkingu til að meta hennar frammistöðu í leikjunum en bandaríska liðið olli gríðarlegum vonbrigðum með frammistöðu sinni á síðasta heimsmeistaramóti. Horan hefur því eins og liðsfélagar hennar mátt þola mikla gagnrýni.

„Flestir stuðningsmanna okkar eru ekki gáfaðir. Þeir þekkja ekki leikinn og þeir skilja hann ekki. Þetta er samt að verða betra,“ sagði Lindsey Horan í viðtali við The Athletic.

„Ég mun örugglega reita sumt fólk til reiði með þessum orðum en íþróttin er að stækka í Bandaríkjunum. Fólk er að læra betur og betur inn á fótboltann en oftast tekur það bara mark á lýsandanum,“ sagði Horan.

„Mamma mín gerir það. Mamma segir við mig: Julie Foudy [knattspyrnulýsandi og fyrrum landsliðskona] sagði að þú hafi átt góðan leik. Ég vissi aftur á móti að ég gat ekki neitt í þessum leik,“ sagði Horan.

Hin 29 ára gamla Horan spilar með Lyon í Frakklandi og þar segir hún að hlutirnir séu öðruvísi.

„Frá því sem ég hef heyrt þá skilur fólk leikinn minn betur hér, veit meira um hvernig ég sé leikinn og hvernig ég spila. Þetta er franski kúltúrinn. Hér horfa allir á fótboltann og fólk þekkir fótboltann,“ sagði Horan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×