
Björn LevíGunnarsson þingmaður Pírata dró upp afar dökka mynd af stöðu fangelsismála í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Í heimsókn á Litla Hraun hafi blasað við skemmt og ónýtt húsnæði því ekki hafi eingöngu skort fé í rekstur fangelsisins heldur einnig í viðhald húsnæðisins.
Hann spurði Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra meðal annars að því hvort hægt væri að réttlæta að greiða föngum 450 krónur á klukkustund fyrir vinnu þeirra, sem þýddi að þeir ættu oft ekki fyrir mat.

„Fangar og tengdir aðilar ganga svo langt að kalla fangelsin kjörgeymslur í núverandi mynd. Núverandi staða er þannig að allir eru settir undir sama hatt. Þannig eru fangar sem eru jafnvel í mikilli neyslu og telja sig ekki hafa neinu að tapa vistaðir á sömu deild og fangar sem eru í bata eða reyna að finna betrun. Dæmi eru um að menn klári langa dóma, tuttugu og fjóra mánuði eða lengri, án þess að hitta sálfræðing einu sinni,“ sagði Björn Leví.
Þá væri lyfjameðferð takmörkuð til að sporna við fíknivanda Þvi væru nauðsynleg lyf til dæmis viðofvirkni ekki aðgengileg.
„Ekki einungis sinni þurfa fangað að baða sig í sameiginlegu rými heldur er sturtubúnaður óvirkur og bilaður. Svo fangar hafa tekið til þess ráðs að baða sig með garðslöngu sem er hengd yfir slá sem skilur að rými milli salernisins og sturtuaðstöðu. Er þetta boðlegt,“ spurði þingmaður Pírata.

Dómsmálaráðherra sagði fangelsismál eitt af hennar aðaláherslumálum. Hún væri sammála fyrirspyrjanda um að þessi málaflokkur hefði átt undir högg að sækja í allt of langan tíma. Ákveðið hafi verið að byggja tímabært nýtt fangelsi.
Guðrún sagðist einnig hafa boðað heildarendurskoðun á fullnustukerfinu í átt til betrunar. Það væri sóun á fjármunum að eyða tvö þúsund milljónum í endurbætur á Litla Hrauni. En fjármunir hafi verið tryggðir til nauðsynlegs viðhalds á þeim sex árum sem tæki að byggja nýtt fangelsi.
„Þá voru tryggðar 250 milljónir í varanlega viðbót til reksturs fangelsa, sem og aðhaldskrafan var tekin af fangelsinu. Sömuleiðis var samþykkt 80 milljón króna viðbótarframlag til að bæta og auka menntun fangavarða. Allt er þetta gert til að bæta aðstöðuna í þessum málaflokki,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir.