Sport

Breki og Tindur á verð­launa­palli á Wodapalooza mótinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Breki Þórðarson stóð sig mjög vel á mótinu um helgina.
Breki Þórðarson stóð sig mjög vel á mótinu um helgina. @brekibjola

Breki Þórðarson og Tindur Elíasen urðu báðir í þriðja sæti í sínum flokki á Wodapalooza CrossFit mótinu um helgina.

Breki keppti í flokki þeirra sem hafa fötlun á efri hluta líkamans. Breki fæddist með sjaldgæfan fæðingargalla og er einhentur.

Breki keppti á heimsleikunum síðasta haust og náði sér ekki alveg á strik þá. Hann gerði aftur á móti vel með því að komast á verðlaunapallinn á þessu móti sem er eitt það stærsta í CrossFit heminum.

Breki var þó ekki nálægt öðru sætinu en þeir tveir efstu, Josue Maldonado og Casey Acree voru í nokkrum sérflokki.

Tindur Elíasen keppti í flokki sextán til átján ára stáka. Hann varð í þriðja sæti eftir Kai Chmilak frá Bandaríkjunum og Lorenzo Pitruzzello frá Ítalíu.

Tindur varð í öðru sæti í tveimur greinum og síðan í þriðja sætinu í öðrum tveimur til viðbótar. Hann var á topp fimm í sex greinum af átta sem sýnir mikinn stöðugleika og lofar góðu fyrir framhaldið.

Bergrós Björnsdóttir var sú eina sem keppti í meistaraflokknum en hún endaði í 31. sæti í einstaklingskeppni kvenna. Bergrós byrjaði frábærlega með því að ná fimmta sætinu í fyrstu grein.

Bergrós, sem er enn bara sextán ára gömul, náði ekki að fylgja því alveg eftir og endaði í 26. sæti eða neðar í öllum hinum greinunum. Hún fékk hins vegar þarna dýrmæta reynslu fyrir framhaldið á þessu ári.

Tveir Hvergerðingar tóku þátt í liðakeppninni. Guðbjörg Valdimarsdóttir keppti með þeim Nicole Crouch frá Bretlandi og Katie Brock frá Nýja-Sjálandi. Liðið heitir NGH og vann fyrstu grein. Þær enduðu síðan í áttunda sætinu.

Björgvin Karl Guðmundsson okkar öflugasti CrossFit maður í meira en áratug, var í liði með Patrick Vellner frá Kanada og Travis Mayer frá Bandaríkjunum. Liðið ber nafnið Tres Leches og endaði í fimmta sæti á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×