Körfubolti

Körfu­bolta­kvöld: „Ef ég hefði pissað í hálf­leik hefði ég lík­lega ekki fallið“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ómar Sævarsson er sérfræðingur Subway Körfuboltakvölds og fyrrum leikmaður Grindavíkur.
Ómar Sævarsson er sérfræðingur Subway Körfuboltakvölds og fyrrum leikmaður Grindavíkur.

Subway Körfuboltakvöld var á dagskrá Stöðvar 2 Sport í gær. Þar sagði sérfræðingurinn Ómar Sævarsson söguna af því þegar hann féll á lyfjaprófi árið 2013.

Stefán Árni Pálsson stýrði Subway Körfuboltakvöldi í gær þar sem farið var yfir allt það helsta sem gerðist í síðustu umferð Subway-deildar karla. Ómar Sævarsson og Teitur Örlygsson voru sérfræðingar þáttarins og sagði Ómar söguna af því þegar hann féll á lyfjaprófi eftir bikarúrslitaleik Grindavíkur og Stjörnunnar árið 2013.

„Ég hef nú ekki séð þessa frétt lengi. Ég forðaðist að horfa á fjölmiðla á þessum tíma,“ sagði Ómar eftir að hafa séð frétt Stöðvar 2 frá því þegar málið kom upp. 

„Við í Grindavík hoppum upp í rútu á leið í höllina og þegar við komum í rútuna þá sit ég við hliðina á Ryan Pettinella sem er að fá sér orkudrykk. Ég spyr hann hvort þetta sé ekki viðbjóðslegt því það var eitthvað bragð af þessu en hann sagði að þetta væri allt í lagi. Ég tek flöskuna og tek tvo sopa og hugsa að þetta sé nú allt í lagi, þetta sé ekki svo slæmt.“

Ómar sagðist ekkert spá meira í þessu en sagði að allir leikmenn vissu að tveir þeirra væru teknir í lyfjapróf eftir bikarúrslitaleik og að hann hefði oftar en ekki verið sá útvaldi.

„Ég ákvað því viljandi að pissa ekki í hálfleik. Síðan kom reyndar í ljós að þetta var svo fáránlega lítið magn að ef ég hefði pissað í hálfleik þá hefði ég líklega ekki fallið.“

Ómar sagðist ekki hafa haft neinar áhyggjur eftir prófið en fékk síðan símtal nokkrum vikum seinna og var viss um að verið væri að grínast í sér.

Þessa skemmtilega innslag úr þættinum má sjá hér fyrir neðan þar sem Ómar segir meðal annars frá afar duglegum starfsmanni lyfjaeftirlitsins sem sinnti starfi sínu og vel það.

Klippa: Körfuboltakvöld - Lyfjaprófssaga Ómars Sævarssonar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×