Fótbolti

Tveir stuðnings­menn Roma stungnir í hefndar­skyni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Nokkrir meðlima Lazio Ultras ákváðu að hefna sín á Roma Ultras.
Nokkrir meðlima Lazio Ultras ákváðu að hefna sín á Roma Ultras. Silvia Lore/Getty Images

Tveir stuðningsmenn Roma voru stungnir af stuðningsmönnum Lazio í hefniskyni eftir að Rómverjar réðust inn á bar og eyðilögðu fagnaðarlæti Lazio manna. 

Nágrannaliðin Lazio og AS Roma áttust við í 8-liða úrslitum ítalska bikarsins. Leiknum lauk með 1-0 sigri Lazio, Mattia Zaccagni skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu, þrír leikmenn fengu svo að líta rautt spjald á lokamínútunum.

Mikil átök innan vallar en mest urðu þau utan vallar og eftir leik. Stuðningsmenn Lazio fögnuðu sigrinum á Ponte Milvio, tíðsóttum bar í borginni. Hátt í annað hundrað Rómverja réðst þá inn á staðinn, köstuðu flöskum og kveiktu í flugeldum. 

Róttækustu stuðningsmenn, Lazio Ultras, ákváðu að svara í sömu mynt. Talið er að um átta menn hafi síðar í skjóli nætur ráðist á Clover Pub, vinsælan stað meðal stuðningsmanna Roma, vopnaðir kylfum og eggvopnum. 

Eigandi staðarins, sjálfur dyggur stuðningsmaður AS Roma, og starfsmaður hans reyndu að stígja mönnum sundur en voru báðir stungnir margsinnis í kviðinn. Mennirnir voru í kjölfarið fluttir á spítala og ástand þeirra beggja talið alvarlegt, en ekki lífshættulegt.

Þegar lögreglan mætti á svæðið voru stuðningsmenn Lazio löngu horfnir. Rannsókn er hafin til að hafa uppi á mönnunum. 


Tengdar fréttir

Bjórflösku kastað í leikmann Roma

Eins og oft í leikjum Lazio og Roma gekk mikið á þegar liðin mættust í átta liða úrslitum ítölsku bikarkeppninnar í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×