„Það var hugur okkar bæjarstjórnar að taka þennan fund heima og nú hefur færst aðeins líf í bæinn,“ segir Ásrún Helga Kristinsdóttir forseti bæjarstjórnar í samtali við Vísi.
Hún segir helstu mál fundarins hafa verið að skoða stöðu innviða og húsnæðis í eigu bæjarins í kjölfar jarðhræringanna. Þá hafi þau þurft að gera breytingar á fjárhagsáætlun sem þau höfðu gert drög að fyrir rýmingu.
Nú verði fjármunum helst varið í uppbyggingu innviða auk sérfræðiaðstoðar sem mun bjóðast tjónþolum.
„Þetta lítur betur út en við þorðum að vona,“ segir Ásrún. En þrátt fyrir það fari næstu tveir mánuðir í að laga húsnæði Grindavíkurbæjar. „Við líka vonumst til þess að það gerist ekkert meira hjá okkur,“ bætir hún við og vísar til nýs hættumats Veðurstofunnar.
„Ég viðurkenni alveg eftir fréttir dagsins að það er aðeins meiri beygur í dag en í gær við þurfum samt sem áður að vera skynsöm og meðvituð um þessar hættur.“
Ásrún segir frábært að sjá hve vel bygging varnargarða hefur tekist. Um það bil tvær vikur séu í að fyrsta áfanga í byggingu garðanna í kringum Grindavík verði náð. Því fylgi mikil öryggistilfinning. „Þeir eru alveg á fullu og það er mikil breyting dag frá degi,“ segir Ásrún.