Á tónleikunum verða tveir gestasöngvarar, Valdimar Guðmundsson og Unnur Birna Björnsdóttir. Fréttamaður fréttastofu mætti á staðinn og ræddi við tónlistarmennina Sigurð Flosason og Valdimar um tónleikana.
Hvað verður um að vera hérna í kvöld?
„Þetta eru okkar árvissu nýárstónleikar, áramótatónleikar þar sem við hyllum sveifluöldina, sirka 1930 til 1950. Við leikum okkur að því að spila upprunalegar útsetningar, nýtt prógram á hverju ári og mismunandi en frábærir söngvarar hjá okkur í hvert sinn. Þannig þetta er alltaf rosalegur hátíðisdagur,“ sagði Sigurður Flosason.
Talandi um söngvara, Valdimar. Þú verður hérna í kvöld að syngja. Þú ert ekki þekktastur fyrir svona tónlist. Hver er þín tenging inn í þessa senu?
„Ég lærði nú á básúnu í mörg ár og spilaði í skólastórsveitum frá því ég var þrettán-fjórtán ára gamall þannig þetta er nú smá í blóðinu manns, þessi músík. Það er gaman að fá að syngja þetta með þessari frábæru hljómsveit,“ sagði Valdimar áður en hljómsveitin gaf áhorfendum smá tóndæmi.