Undirritaður tók nýverið þátt í viðburði hjá HBO þar sem blaðamenn víðs vegar frá heiminum ræddu við Foster, Reis og Lopez og spurðu þær um framleiðslu þáttaraðarinnar, lífið og listina.
„Við söknum ykkar,“ sagði Jodie Foster í upphafi, þegar starfsmaður HBO sagði henni að næsti blaðamaðurinn væri frá Íslandi.
Aðspurð um hvernig upplifun hennar af tökunum á Íslandi hefði verið sagðist Foster hafa elskað tímann hér á landi.
„Ooooh, ég elska að vera þar,“ sagði Foster. Þegar hún hafði hitt þær Kali Reis og Issu Lopez, leikstjóra og rithöfund seríunnar, fyrr um daginn, höfðu þær byrjað á því að rifja upp hvað þær söknuðu þess að vera saman á Íslandi.
„Við söknum fólksins, við söknum söngsins, tónlistarinnar og æðislega matarins. Þess að vera saman á götunum,“ sagði Foster. „Fyrir mér er Reykjavík hinn fullkomni bær. Það var æðislegt að vera þarna í sjö mánuði.“

Hvammsvík í uppáhaldi
Reis sló á svipaða strengi og Foster. Hún fór fögrum orðum um Ísland og gaf í skyn að hana langaði að flytja hingað til lands og sagðist vona til þess að við yrðum nágrannar.
„Hver dagur þar sem ég fékk að koma heim í íbúð mína í Reykjavík var sérstakur,“ sagði Reis. Hún sagðist hafa farið nokkuð víða um Ísland en frídagarnir hefðu verið fáir. Allir staðir sem hún heimsótti hafi þó verið töfrum líkastir.
„Minn uppáhalds staður á Íslandi var Hvammsvík,“ sagði Reis. Hún segir fólkið hafa verið frábært og maturinn líka.
„Ég sakna ykkur,“ sagði Reis.

Erfiðustu tökurnar í námu
„Ohh, það er frábært að hafa Íslending hérna. Við höfum saknað ykkar,“ sagði Issa Lopez, þegar undirritaður kynnti sig fyrir henni.
Aðspurð um hvaða tökur hefðu reynst erfiðastar á Íslandi nefndi Lopez tökur sem fóru fram í grjótanámu fyrir utan Reykjavík.
„Hún var þakin tugum sentímetra af ís og við þurftum að taka upp þar þrjár nætur í röð í miklum, miklum kulda. Síðasta daginn var gul, mögulega appelsínugul viðvörun og mikill vindur á leiðinni,“ sagði Lopez.
Hún sagði mikið í húfi því nauðsynlegt hefði verið að klára umræddar tökur í námunni því annars hefði tökuliðið setið fast. Þegar tökurnar kláruðust hafi allir þurft að grípa búnað og hlaupa að bílunum, svo þau kæmust undan veðrinu.
„Þessar tökur tóku á. Ég var þakin snjó frá toppi til táar,“ sagði Lopez. Hún sagði tárin í augum hennar hafa frosið, svo mikill hafi kuldinn verið.
„En senan heppnaðist mjög vel. Þetta var þess virði.“
Þurftu að vera á tánum
Lopes sagði einnig að kuldinn hefði verið mjög erfiður við tökur á Night Country.
„Á einum tímapunkti vorum við að taka upp klukkan tvö um nóttina í 23 gráðu frosti. Ég er frá Mexíkó og er ekki hönnuð fyrir slíkar aðstæður.“
Issa sagði að við tökurnar hefðu leikarar og annað starfsfólk, sem teymi, haft það hugarfar að framleiðslan væri ferðalag sem þau væru öll á saman. Hún hafi þurft að læra að klæða sig rétt, takast á við aðstæðurnar og komast í gegnum þær.
„Ég held við höfum tekið upp 49 nætur í röð, sem er ekki svo erfitt þegar nóttin er svona löng, en það var flókið.“
Hún sagði þættina gerast bæði innanhúss í smáum rýmum og á stórum opnum svæðum þar sem tökur væru mun erfiðari og flóknari. Það hefði tekið á að ná jafnvægi á framleiðslunni í mjög óútreiknanlegu umhverfi.
„Það er ekki bara kalt á norðurslóðum heldur getur veðrið breyst mjög hratt,“ sagði Issa. Hún sagði að þau hefðu þurft að flýja tökustaði vegna óveðursviðvarana.
„Við þurftum að vera á tánum. Við voru ótrúlega heppin en þetta var krefjandi,“ sagði hún.