Veður

Víðast lítils­háttar úr­koma í dag og hvessir annað kvöld

Atli Ísleifsson skrifar
Gera má ráð fyrir vaxandi suðaustanátt um landið vestanvert annað kvöld.
Gera má ráð fyrir vaxandi suðaustanátt um landið vestanvert annað kvöld. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir að víða verði fremur hæg suðvestlæg átt í dag með lítilsháttar úrkomu. Úrkoman geti fallið sem snjór, slydda eða rigning þar sem hitastigið er nálægt frostmarki.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að það verði bjart með köflum og þurrt að mestu á Norðaustur- og Austurlandi. Gera má ráð fyrir dálitlum éljum suðvestanlands og að frost á landinu verði á bilinu núll til fimm stig. Allvíða verður frostlaust við ströndina.

„Á morgun, laugardag verður hæg breytilega átt og þurrt að kalla á landinu en vaxandi suðaustanátt um landið vestanvert um kvöldið.

Frá og með sunnudegi og fram eftir næstu viku er útlit fyrir hlýjar suðlægar áttir en vætu um landið sunnan- og vestanvert, en lengst af þurrt og bjart fyrr norðan og austan.

Hlýindin og vætan mun án efa vinna vel á svellbunkum og sköflum, sem valdið hafa vandræðum undanfarið,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Yfirleitt hæg suðlæg átt og bjartviðri, en suðaustankaldi, skýjað og úrkomulítið vestantil um kvöldið. Frost víða 0 til 10 stig, en frostlaust vestast.

Á sunnudag: Sunnan og suðaustan 8-15 m/s, hvassast vestantil. Víða lítilsháttar væta, en bjartviðri á Norður- og Austurlandi. Hiti 0 til 8 stig, hlýjast syðst.

Á mánudag, þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag: Ákveðnar sunnan- og suðaustanáttir, rigning eða súld með köflum og fremur hlýtt, en lengst af þurrt og bjart norðaustantil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×