Á vef Veðurstofunnar segir að hiti verði við frostmark syðst en frost niður að sautján stigum í innsveitum fyrir norðan.
„Á morgun bætir aðeins í vind og dálítil él verða á víð og dreif. Framan af úrkomulítið vestanlands, en um kvöldið gengur þar í suðaustan strekking með éljum. Hlýnar aðeins í veðri.
Á sunnudag (gamlársdag) er útlit fyrir hæga breytilega átt og stöku él, en á gamlárskvöld koma skil inn á austanvert landið. Snýst í norðan strekking þar með snjókomu,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag: Austan 5-13 m/s, hvassast syðst, og dálítil snjókoma af og til. Gengur í suðaustan 10-15 vestanlands um kvöldið með éljum. Frost 0 til 10 stig, mildast syðst.
Á sunnudag (gamlársdagur): Norðaustlæg eða breytileg átt 3-10. Skýjað með köflum og él á stöku stað. Bætir í vind og fer að snjóa fyrir austan um kvöldið. Hiti breytist lítið.
Á mánudag (nýársdagur): Norðaustan 10-18, hvassast syðst. Rigning eða slydda austanlands, dálítil snjókoma norðan heiða, en úrkomuminna suðvestantil. Hlýnar í veðri.
Á þriðjudag og miðvikudag: Norðaustanátt og dálítil él, en lítilsháttar væta við suðurströndinna og bjartviðri á Vesturlandi. Kólnar smám saman aftur.
Á fimmtudag: Útlit fyrir fremur hæga norðaustlæga átt, sums staðar stöku él og allvíða frost.