Sport

Kynngimagnaður leikur hjá Dobey og Smith

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Chris Dobey er kominn í sextán manna úrslit á HM í pílukasti eftir sigur á Ross Smith, 4-2, í frábærum leik.
Chris Dobey er kominn í sextán manna úrslit á HM í pílukasti eftir sigur á Ross Smith, 4-2, í frábærum leik. getty/John Walton

Chris Dobey, Joe Cullen og Stephen Bunting tryggðu sér sæti í sextán manna úrslitum á HM í pílukasti í dag.

Viðureign Dobeys og Ross Smith var mögnuð og mjög jöfn eins og við mátti búast. Þeir eru númer sextán (Smith) og sautján (Dobey) á heimslistanum.

Dobey og Smith voru báðir með yfir hundrað í meðaltal í leiknum í dag og hittu samtals 27 sinnum í 180. Dobey vann fyrstu tvö settin og fékk góð tækifæri til að komast í 3-0 sem ekki nýttust. 

Smith svaraði fyrir sig og jafnaði í 2-2 en Dobey sýndi styrk sinn, vann næstu tvö sett og leikinn, 4-2. Smith er því úr leik þrátt fyrir að hafa skorað 103,33 að meðaltali í dag.

Leikur Cullens og Ryans Searle fylgdi sömu formúlu. Cullen vann fyrstu tvö settin, Searle jafnaði en Cullen tryggði sér sigurinn með því að vinna síðustu tvö settin og leikinn þar með, 4-2.

Searle fór illa að ráði sínu í útskotunum og hitti aðeins 23,5 prósent í þeim gegn fjörutíu prósentum hjá Cullen.

Bunting heldur áfram að spila eins og engill á HM og átti ekki í miklum vandræðum með að leggja gamla handboltamarkvörðinn Florian Hempel að velli, 4-0. Bunting var með 101,15 í meðaltal og frábæra prósentu í útskotunum (52,2).

Bunting mætir Michael van Gerwen í sextán manna úrslitunum og Dobey heimsmeistaranum Michael Smith. Cullen mætir sigurvegaranum í viðureign Lukes Humphries og Ricardos Pietreczko í kvöld. Auk þeirra mætast Gerwyn Price og Brendan Dolan og Ricky Evans og Daryl Gurney í kvöld.

Kvölddagskráin hefst um klukkan 19:00 en leikirnir verða í beinni útsendingu á Vodafone Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×