Á vef Veðurstofunnar segir að það sé heldur kólnandi veður og að síðdegis megi búast við frosti á bilinu einu stigi syðst að tólf stigum í innsveitum fyrir norðan.
„Á morgun er útlit fyrir hægari vind og áfram dálítil él við norður- og austurströndina en snjókoma syðst. Þá birtir til um landið vestanvert. Enn herðir á frosti, frost allt að 17 stigum norðan heiða,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag: Austlæg eða breytileg átt 3-10 m/s. Skýjað að mestu og lítilsháttar él með norðurströndinni, en snjókoma syðst. Frost frá 1 stigi syðst, niður í 17 stiga frost í innsveitum fyrir norðan.
Á laugardag: Austan 5-13, en hægari um landið austanvert. Dálítil snjókoma á víð og dreif, en yfirleitt þurrt suðvestanlands. Frost 0 til 10 stig, mildast syðst.
Á sunnudag (gamlársdagur): Suðaustan og austan 5-13 og snjókoma. Hægari vindur sunnan- og austanlands og lítilsháttar él við ströndina. Hiti breytist lítið.
Á mánudag (nýársdagur): Norðaustan og austan 5-13 og víða él, en snjókoma um landið vestanvert. Áfram frost um allt land.
Á þriðjudag og miðvikudag: Norðlæg átt og dálítil él á Norður- og Austurlandi, en snjókoma með köflum suðvestantil. Kalt í veðri.