Úrúgvæinn Luis Suárez hefur nefnilega ákveðið að koma til Miami og spila með sínum gamla félaga Lionel Messi. Fyrir hjá Inter Miami eru einnig þeir Sergio Busquets og Jordi Alba, sem léku með Suárez og Messi hjá Barcelona.
Frá þessu greinir félagaskiptafréttamaðurinn virti Fabrizio Romano á Twitter. Hann segir að samkomulag sé í höfn og ekkert því til fyrirstöðu að tilkynna félagaskiptin.
Munnlegt samkomulag um samning til eins árs, með möguleika á framlengingu um eitt ár, náðist fyrir mánuði síðan.
Luís Suárez to Inter Miami, all set to be sealed and announced here we go!
— Fabrizio Romano (@FabrizioRomano) December 22, 2023
Contract ready after verbal agreement reached one month ago one-year deal for Suárez.
Deal will also include an option for further season.
Messi and Suárez, together again. pic.twitter.com/Vf9ytZNlJP
Suárez og Messi léku saman hjá Barcelona á árunum 2014-2020, og þegar Neymar var einnig hjá liðinu var talað um MSN-þríeykið.
Hjá Barcelona unnu þeir Suárez og Messi meðal annars einn Evrópumeistaratitil, fjóra Spánarmeistaratitla og fjóra bikarmeistaratitla, auk þess að vinna HM félagsliða einu sinni.
Suárez, sem verður 37 ára í næsta mánuði, lék síðast með Gremio í Brasilíu. Hann kom að flestum mörkum allra í efstu deild Brasilíu í ár eða alls 28, með 17 mörk og 11 stoðsendingar, í 33 leikjum fyrir silfurlið Gremio. Hann var valinn besti leikmaður tímabilsins.