Innlent

Daginn tekur að lengja á ný

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Á morgun nýtur birtu örfáum sekúndum lengur en í dag.
Á morgun nýtur birtu örfáum sekúndum lengur en í dag. Vísir/Vilhelm

Vetrarsólstöður voru á fjórða tímanum í nótt. Frá og með deginum í dag tekur sól að hækka á lofti og hver dagur verður örlítið lengri en dagurinn á undan, mörgum eflaust til mikillar ánægju. 

Sólstöður vísar til þess að sólin stendur kyrr, hættir að hækka eða lækka á lofti. Sólstöður að vetri er sá tími ársins þegar nóttin er lengst á norðurslóðum. Klukkan 3:27 í nótt voru vetrarsólstöður, og á næstu dögum tekur daginn að lengja og nóttin að styttast. Þróunin er hæg en stöðug, á morgun njóta landsmenn birtu sólarinnar örfáum sekúndum lengur en í dag og smám saman víkur myrkrið alveg fyrir hækkandi sól. 

Þrátt fyrir að framboð á sólarljósi aukist nú eru janúar og febrúar að jafnaði köldustu mánuðir ársins.Vísir/Vilhelm

Dagarnir halda áfram að lengjast fram að sólstöðum að sumri, sem á næsta ári verða 20. júní, þá er lengsti dagur ársins og jafnframt stysta nóttin. Að meðaltali lengir daginn um þrjár mínútur og tuttugu sekúndur á sólarhring.

Bjart í fjórar klukkustundir í dag

Í dag njóta íbúar höfuðborgarsvæðisins birtu sólarinnar í fjórar klukkustundir og sjö mínútur, eða frá klukkan 11:22 – 15:29, samkvæmt Timeanddate.com

Hér má sjá umfjöllun úr kvöldfréttatíma Stöðvar 2 frá byrjun árs þar sem  rýnt var í sólarganginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×