Það var þungt fyrir Grindvíkinga þegar fregnir af eldgosinu bárust á mánudagskvöld. Þá voru liðnar tæpar sex vikur síðan bæjarbúar gistu síðast heima hjá sér og einhverjir byrjaðir að láta sig dreyma um að komast heim fyrir jól.
Grindvíkingurinn Eggert Sólberg og hans fjölskylda biðu í ofvæni eftir frekari upplýsingum eftir fyrstu fréttir af gosinu. Þau voru nýkomin á sinn þriðja dvalarstað síðan bærinn var rýmdur.
„Þetta var hræðsla. Það er hægt að lýsa þessu þannig að maður var dofinn. Ég var dofinn bæði andlega og líkamlega. Gærdagurinn var mjög erfiður, það blandaðist líka inn í þetta þreyta. Við vöktum lengi til þess að fylgjast með gosinu og reyna að afla okkur upplýsinga. Ég held það eigi við um flesta Grindvíkinga, það var lítið sofið nóttina sem gaus,“ segir Eggert.
Hann segir það vera erfitt fyrir Grindvíkinga að vita ekkert hvenær þeir geta snúið aftur heim.
„Einhverjir finna fyrir létti að nú sé komið gos sem ógnar alla vega ekki bænum strax. En aðrir eru verulega vonsviknir. Auðvitað erum við öll vonsvikin, við höfðum væntingar um að geta verið meira heima hjá okkur um hátíðarnar,“ segir Eggert. „Þetta er bara drulluerfitt. Við sem betur fer búum í mjög samheldnu samfélagi og það hefur fleytt okkur mjög langt.“
Sérð þú fyrir þér að geta flutt aftur til Grindavíkur eftir þetta allt saman?
„Já. Ég get ekki beðið eftir því að komast aftur heim,“ segir Eggert.