Tímabilið fór skelfilega af stað og varð að lokum versta byrjun liðsins í deildinni frá upphafi. Liðið sat í fallsæti eftir sjö leiki þar sem aðeins fimm stig voru komin í sarpinn og stuðningsmenn liðsins létu öllum illum látum.
Þann 23. október var þjálfari liðsins, Maurice Steijn, rekinn eftir 4-3 tap gegn FC Utrecht. Steijn skrifaði undir samning til ársins 2026 í júní á þessu ári en í þeim ellefu leikjum sem hann stýrði liðinu náði hann aðeins tveimur sigrum í hús.
Ráðning Steijn þótti nokkuð umdeild en hann hafði enga tengingu við liðið eins og flestir þjálfarar liðsins í gegnum tíðina. Þann 30. október var John van 't Schip fenginn til að taka við stöðunni út tímabilið, en hann lék á sínum tíma 273 deildarleiki fyrir Ajax og hefur áður þjálfað liðið.
Undir hans hefur algjör viðsnúningur orðið á gengi liðsins. Liðið hefur unnið fjóra síðustu leiki sína í deildinni og tryggði sér áframhaldandi þátttöku í Evrópukeppni með sigri á AEK Aþenu í fyrrakvöld. Var þetta jafnframt fyrsti sigur liðsins í Evrópudeildinni.
Næsti leikur Ajax er heimaleikur gegn Zwolle á morgun. Liðið er sem stendur með 24 stig í 5. sæti eftir 15 leiki. Enn eru þó níu stig í næstu lið fyrir ofan, Twente og AZ. Á toppi deildarinnar trónir svo PSV sem hefur haft algjöra yfirburði í vetur og er með fullt hús stiga.