Tíu Tottenham-menn unnu sinn annan leik í röð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Dejan Kulusevski og Richarlison sáu um markaskorun Tottenham í kvöld.
Dejan Kulusevski og Richarlison sáu um markaskorun Tottenham í kvöld. Shaun Botterill/Getty Images

Tottenham Hotspur vann mikilvægan 2-0 sigur er liðið heimsótti Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Gestirnir í Tottenham voru mun meira með boltann í fyrri hálfleik, en gekk þó illa að skapa sér opin marktækifæri ef frá er talið gott færi sem Heung-Min Son kom sér í snemma leiks.

Það var ekki fyrr en á annarri mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks að það dró loksins til tíðinda þegar frábær fyrirgjöf Dejan Kulusevski fann kollinn á Richarlison inni á teignum og sá brasilíski stýrði boltanum vel í netið.

Anthony Elanga hélt að hann hefði jafnað metin fyrir Nottingham Forest á 58. mínútu, en markið dæmt af vegna rangstöðu. Þess í stað tvöfaldaði Dejan Kulusevski forystu gestanna með föstu skoti á 65. mínútu eftir að Tottenham hafði nýtt sér mistök Matt Turner í marki heimamanna.

Fimm mínútum síðar lentu gestirnir þó í veseni þegar Yves Bissouma lét reka sig af velli með beint rautt spjald fyrir ljótt brot á Ryan Yates.

Heimamenn í Nottingham Forest sóttu nokkuð stíft það sem eftir lifði leiks, en náðu ekki að nýta sér liðsmuninn og niðurstaðan varð góður 2-0 sigur Tottenham.

Með sigrinum fer Tottenham upp að hlið Manchester City í fjórða sæti deildarinnar. Liðið er nú með 33 stig eftir 17 leiki, fjórum stigum minna en topplið Liverpool. Nottingham Forest situr hins vegar í 16. sæti með 14 stig, fimm stigum fyrir ofan fallsvæðið.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira