Á vef Veðurstofunnar segir að hiti verði víða á bilinu eitt til sex stig.
Það verður svo hægari vindur með kvöldinu, en snýst í norðankalda með snjókomu fyrir norðan.
„Snýst í allhvassa eða hvassa norðvestanáttr norðaustantil á morgun með dáliltlum éljum, en annars mun hægara og léttskýjað að mestu. Lægir heldur um kvöldið og rofar til. Frost yfirleitt 0 til 5 stig. Hæg suðaustlæg eða breytileg átt og bjart með köflum á föstudag og hlýnar lítið eitt,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Norðvestan 10-18 m/s og dálítil él norðaustantil framan af degi, en annars 3-10 og yfirleitt léttskýjað. Frost 0 til 8 stig, minnst við sjávarsíðuna.
Á föstudag: Hæg suðlæg eða breytileg átt og bjart með köflum. Frost 0 til 8 stig, en yfirleitt frostlaust með suður- og vesturströndinni.
Á laugardag og sunnudag: Sunnan- og suðvestankaldi og rigning með köflum, en þurrt að kalla norðaustanlands. Hlýnandi veður í bili.
Á mánudag: Útlit fyrir hvassa vestan- og norðvestanátt með rigningu eða snjókomu og kólnandi veður.
Á þriðjudag: Líklega vestlæg átt með éljum og svölu veðri.