Handbolti

Sjö ís­lenskir sigrar í Evrópudeildinni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar í Nantesunnu góðan sigur í Evrópudeildinni í kvöld.
Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar í Nantesunnu góðan sigur í Evrópudeildinni í kvöld. HBC Nantes

Alls fóru fram 16 leikir í Evrópudeildinni í handbolta í kvöld og voru Íslendingar í eldlínunni í sjö þeirra. Í öllum sjö leikjunum unnust íslenskir sigrar.

Stiven Tobar Valencia var eini Íslendingurinn sem ekki fagnaði sigri, en hann og félagar hans í Benfica máttu þola níu marka tap gegn Ými Erni Gíslasyni, Arnóri Snæ Óskarssyni og félögum þeirra í Rhein-Neckar Löwen í A-riðli, 39-30. Arnór og Stiven skoruðu tvö mörk hvor, en Ýmir komst ekki á blað.

Í sama riðli vann Nantes góðan fjögurra marka sigur gegn Kristianstad, 31-27. Viktor Gísli Hallgrímsson átti fínan leik í markinu og varði tíu skot, en Nantes situr nú í öðru sæti riðilsins með sex stig, tveimur stigum minna en topplið Rhein-Neckar Löwen og fjórum stigum meira en Benfica sem situr í þriðja sæti.

Orri Freyr Þorkelsson skoraði sex mörk fyrir Sporting CP er liðið vann öruggan átta marka sigur gegn Tatabanya í H-riðli, 36-28. Orri og félagar sitja í öðru sæti riðilsins með fjögur stig, þremur stigum á eftir toppliði CSM Constanta.

Í E-riðli voru einnig tvö Íslendingalið í eldlínunni þar sem Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði tvö mörk í tíu marka sigri Kadetten Schaffhausen gegn Lovcen 36-26 og Teitur Örn Einarsson skoraði þrjú mörk fyrir Flensburg er liðið lagði Elverum, 38-35. Flensburg trónir á toppi riðilsins með átta stig, en Kadetten situr í öðru sæti með sex.

Þá eru Tryggvi Þórisson og félagar í Sävehof enn með fullt hús stiga í C-riðli eftir þriggja marka útisigur gegn Pfadi Winterthur, 29-32, og Heiðmar Felixson, aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf, stýrði liðinu til sigurs gegn AEK Athens í B-riðli í fjarveru Christian Prokop, aðalþjálfara, 29-34.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×