Bankastjórar stóru bankanna þriggja voru boðaðir á fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun. Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, Jón Guðni Ómarsson bankastjóri Íslandsbanka og Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans sóttu fundinn.
„Við vildum taka þá snemma inn. Mér finnst mikilvægt að allir finni að það eru allir saman í þessu. Það standi allir vaktina. Heyra hvað er að gerast hjá bönkunum,“ segir Ágúst Bjarni Garðarsson sem kallaði eftir því að bankastjórarnir kæmu á fundinn.

Hann segist nokkuð ánægður með tóninn í bönkunum að loknum fundi.
„Við munum þurfa að halda áfram að fylgjast með stöðunni. Mér heyrist allir vera á þeim nótum að þeir skynji sína ábyrgð.“
Horfa þurfi til lagaumgjarðarinnar í því samhengi. Þá verði að öllum líkindum fundað að nýju á föstudag og málinu fylgt eftir. Hann sagði tóninn hjá bankastjórunum mjög líkan.

„Það átta sig allir á sinni ábyrgð,“ segir Ágúst Bjarni.
Bankarnir þrír hafa boðið Grindvíkingum upp á að frysta lán sín sem þó safna vöxtum og verðbótum.
Grindvíkingar hafa kallað eftir því að ekki þurfi að greiða vexti á lánunum í einhvern tíma.
Ágúst Bjarni segir að áfram verði fylgst með því á Alþingi að bankarnir standi með fólki og fyrirtækjum í Grindavík.
„Það verður að öllum líkindum fundur hjá nefndinni á föstudag sem sýnir að þinginu er alvara. Við munum fylgjast með aðgerðum bankanna og beita þeim úrræðum sem þarf ef ekki er nóg gert.“