Í hugleiðingum veðurfræðings segir að það verði suðvestlægari vindur upp úr hádegi og kólni með skúrum eða éljum. Þá taki hríðarviðvaranir gildi. Á norðaustanverðu landinu verði úrkoma þó með minnsta móti.

„Áfram hvöss vestanátt með éljum eða skúrum framan af morgundegi, en dregur síðar hægt og bítandi úr vindi og snýst í norðankalda norðanlands um kvöldið.
Hryssingslegt haustveður í dag og á morgun og eru því ferðalangar hvattir til að kynna sér veðurviðvaranir og -spár ásamt færð á vegum áður en lagt er af stað.

Útlit fyrir norðlæga átt á fimmtudag, víða bjart og svalt veður, en strekkingur og dálítil él norðaustanlands framan af degi,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Gular viðvaranir hafa þegar tekið eða munu taka gildi alls staðar á landinu nema á höfuðborgarsvæðinu, Suðausturlandi og Austurlandi að Glettingi í dag og gilda til morguns.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag: Vestan og suðvestan 13-20 m/s, hvassast suðvestantil, en norðaustan 8-13 á Norðurlandi. Víða él, en yfirleitt þurrt austanlands, en dregur smám saman úr vindi seinnipartinn. Hiti 0 til 4 stig.
Á fimmtudag: Norðvestan 10-18 m/s og dálítil él norðaustantil framan af degi, en annars norðlæg átt, 3-10 og yfirleitt léttskýjað. Frost 0 til 8 stig, minnst við sjávarsíðuna.
Á föstudag og laugardag: Hæg breytileg átt, bjart með köflum og hægt hlýnandi veður.
Á sunnudag: Suðaustlæg átt og skýjað að mestu. Hiti nærri frostmarki.
Á mánudag: Útlit fyrir suðlæga og síðar vestlæga átt með rigningu eða slyddu, en lengst af þurrviðri norðaustanlands.