„Það er skiljanlegt að Grindvíkingar vilji fá einhverja meiri vissu og betri svör ég skil það vel, það er mikil óvissa. Bankarnir eru með samtökum fjármálafyrirtækja í mjög góðu samtali við stjórnvöld um að koma með heildstæða lausn,“ sagði Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans í Kvöldfréttum Stöðvar 2.
„Og þarna þurfa margir aðilar að vinna saman,“ segir Lilja og nefnir stjórnvöld, sveitarstjórn og vátryggjendur. „Þannig að við erum sannarlega hluti af þessu samtali og viljum gera eins vel og við getum gagnvart Grindvíkingum. “
Þetta er náttúrlega mjög vítt svar. Í fljótu bragði, hvað væri hægt að gera?
„Við erum bara vinna að því og það hefur auðvitað verið kallað á eftirgjöf vaxta og verðbóta. Það er auðvitað eitt af því sem kemur til greina en það þarf bara að líta í mjög mörg horn. Það þarf að vinna vel saman og við erum að því,“ segir Lilja og þakkar stjórnvöldum fyrir góðar viðtökur.
„Og það skiptir öllu máli að reyna að minnka óvissuna en við erum auðvitað í miðjum náttúruhamförum líka þannig að svörin eru ekki öll til staðar,“ segir Lilja.
Einhverjir Grindvíkingar hafa áhyggjur af því að eignir þeirra verði verðlausar, eiga menn að vera í bandi við ykkur eða kemur bara ein lausn sem allir njóta góðs af?
„Það er alltaf gott að vera í sambandi við sinn banka en það er of snemmt að segja til um hvernig þetta verður allt. Það eru svo margir aðilar sem koma að svona málum og við erum einn af þeim og algjörlega tilbúin og erum í því samtali núna.“