Í hugleiðingum veðurfræðings segir að yfirleitt verði þurrt og bjart veður á norðanverðu landinu og skúrir viðloðandi á Suðausturlandi og Austfjörðum.
„Seinnipartinn eru líkur til þess að dálítið regnsvæði færi sig yfir suðvesturfjórðung landins. Hiti frá því að vera kringum frostmark í innsveitum fyrir norðan, upp í 7 stig syðst.
Á morgun er útlit fyrir litlar breytingar á vinda- og hitasviðinu. Búast má við vætu áfram suðaustantil á landinu, en bjartviðri á Norður- og Vesturlandi.
Þegar horft er á veðurkort lengra fram í tímann út vikuna, er áfram útlit fyrir austlæga átt og fremur aðgerðalítið veður,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Austan 3-8 m/s, en 8-13 við suðurströndina. Dálítil rigning eða slydda af og til á sunnan- og austanverðu á landinu, en þurrt og bjart annars staðar. Hiti 1 til 6 stig, en um frostmark fyrir norðan.
Á föstudag: Suðaustan 5-10 og rigning eða slydda með köflum, en hægari vindur bjartviðri á Norður- og Austurlandi. Hiti breytist lítið.
Á laugardag: Austan 3-10. Bjart að mestu á Norður- og Austurlandi, en annars svolítil rigning eða slydda. Hiti 0 til 6 stig, mildast syðst.
Á sunnudag: Hæg norðlæg eða breytileg átt og víða þurrt veður, en rigning eða slydda austanlands. Hiti kringum frostmark, en hiti 1 til 5 stig við ströndina.
Á mánudag: Fremur hæg norðvestlæg eða breytileg átt og bjartviðri, en slydda austanlands framan af degi. Hiti breytist lítið.
Á þriðjudag: Ákveðin sunnan- og suðvestanátt með rigningu, einkum á Suður- og Vesturlandi. Hlýnar í veðri.