Hjörvar Steinn Grétarsson tapaði fyrir Magnúsi á fyrsta borði og Vignir Vatnar Stefánsson gerði jafntefli gegn stórmeistaranum Lars Oskar Hauge á þriðja borði. Hannes Hlífar Stefánsson og Hilmir Freyr Heimisson lögðu hins vegar þá Elham Amir og Tor Fredrik Kaasen og tryggðu Íslendingum sigur.
Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands, segir um að ræða „glæsilegan og óvæntan sigur“ en Noregur er áttunda sterkasta liðið og Ísland númer 29 í stigaröðinni.
„Íslenska kvennaliðið tapaði fyrir sveit Tékklands. Jóhanna Björg Jóhannsdóttir vann, Olga Prudnykova gerði jafntefli en Lenka Ptácníková og Lisseth Acevedo Mendez töpuðu. Stelpurnar tefla við Noreg í dag,“ segir í tilkynningu frá Skáksambandinu.
Þá hófu tólf ungmenni frá Íslandi þátttöku á HM ungmenna í Montesilvano á Ítalíu í gær.
„Ingvar Wu Skarphéðinsson, Guðrún Fanney Briem unnu í fyrstu umferð. Aleksandr Domalchuk-Jonasson gerði jafntefli en aðrar skákir töpuðust. Tefldar eru 11 umferðir og stendur mótið til 25. nóvember.“