Ríkisskuldabréf flestra vestrænna landa hafa alla jafnan verið talin með öruggustu eignum í heimi. Þá hafa skuldabréf í mynt þar sem viðkomandi land hefur peningaprentunarvaldið almennt talist sérstaklega öruggur fjárfestingakostur. Það er vegna þess að ef ekki er afgangur af rekstri ríkissjóðs til afborgana þá mun seðlabanki landsins einfaldlega prenta peninga til þess að kaupa skuldabréfið til baka, ekki satt?
Mark Twain orti fleyg orð sem hljómuðu svona: það er ekki það sem þú veist ekki sem kemur þér í vandræði – heldur það sem þú gengur að vísu en reynist síðan rangt (“It ain't what you don't know that gets you into trouble. It's what you know for sure that just ain't so”).
Þessi orð eiga vel við í dag þar sem nýjar hættur steðja að fjárfestum sem hafa ekki sést á starfsævi margra þeirra. Ein stærsta spurning sem allir fjárfestar ættu að spyrja sig í dag er þessi: Hvers virði eru langtíma óverðtryggð ríkisskuldabréf ríkja í verðbólguumhverfi?
Eitt besta dæmið sem sýnir hversu mikið umhverfið hefur breyst er 100 ára óverðtryggt ríkisskuldabréf sem austurríska ríkið gaf út árið 2017 á ávöxtunarkröfunni 2%. Það þýðir að ef fjárfestir keypti þetta skuldabréf og heldur á því fram á lokagjalddaga árið 2117 þá er ávöxtun viðkomandi 2% á ári að nafnvirði. Ef verðbólga er 2% eða minni á tímabilinu heldur skuldabréfið + vaxtagreiðslur verðgildi sínu að raunvirði sem væntanlega er lágmarks krafa allra fjárfesta.
Hvað ef það kemur hins vegar óvænt verðbólguskot á tímabilinu? Nú hefur verðbólga aukist töluvert á síðustu árum. Verð þessara skuldabréfa hafa því lækkað um 65% að nafnvirði þannig að fjárfestum býðst í dag að kaupa 100 dollara kröfu á 35 dollara í dag. Þessi gríðarmikli afsláttur kemur til vegna þess að vaxtaumhverfi heimsins hefur verið snúið algjörlega á hvolf á síðustu þremur árum. Hver króna, dollari eða evra hefur nú þegar misst kaupmátt sinn um tugi prósenta og því hafa flestöll langtíma skuldabréf fallið gríðarlega í virði.
Til dæmis hefur ávöxtun bandaríska ríkisskuldabréfasjóðsins TLT, eins og sést hér á myndinni að ofan, fallið 50% í virði frá árinu 2020 og ávöxtun er engin síðustu 20 árin og ávöxtun að raunvirði því verulega neikvæð.
Þá sjáum við hér einnig ávöxtunarkröfu á 10 ára ríkisskuldabréfum í Bandaríkjunum frá árinu 1980 og þar sést að við höfum nú brotið okkur upp á 40 ára samfelldum lækkunarfasa í ávöxtunarkröfu.
Sögulega sjáum við ítrekuð dæmi þess að þegar verðbólga fer nálægt tveggja stafa tölu á ársgrundvelli, þá hefur hún tilhneigingu til þess að verða þrálát í langan tíma í kjölfarið og jafnvel hátt í áratug eins og hinn vestræni heimur upplifði á 8. áratugi síðustu aldar. Þá var verðbólgan yfir 100% uppsöfnuð á tímabilinu í Bandaríkjunum og hver dollari missti þannig helming kaupmáttar síns á einungis 10 ára tímabili. Kaupendur bandarískra ríkisskuldabréfa töpuðu því helmingi af raunvirði höfuðstól fjárfestingarinnar. Jafnvel þótt þeir hafi fengið hóflegar vaxtagreiðslur í ávöxtun árlega var það ekki nóg til að bæta upp fyrir verðfall skuldabréfanna.
Hvað gerir verðbólgan næst ?
Ef við höldum áfram að skoða 8. áratug síðustu aldar, þá sjáum við ákveðin líkindi með núverandi ástandi. Aukin átök fyrir botni Miðjarðarhafs ollu olíukrísu árið 1973 og velta má fyrir sér hvort nú stefni í sambærilega atburðarás. Til viðbótar má merkja mikil lausatök í ríkisfjármálum flestra landa um þessar mundir sem sömuleiðis ýtir undir verðbólgu. Einnig er mikil áhersla lögð á orkuskipti þar sem heimurinn er farinn að auka vægi umhverfisvænni orkugjafa sem gæti sett þrýsting á orkuverð. Breytt aldurssamsetning vesturlanda skapar launaþrýsting þegar stórar kynslóðir eru að fara á eftirlaun og samkeppni eykst um vinnuafl. Að lokum hafa aukin átök í heiminum dregið úr alþjóðavæðingu og jafnvel snúið henni við sem dregur úr hagkvæmni við framleiðslu með tilheyrandi verðbólguáhrifum. Allt þetta eru þættir sem geta aukið verðbólgu á næstu árum og mikilvægt er að hafa augun á.
Sögulega sjáum við ítrekuð dæmi þess að þegar verðbólga fer nálægt tveggja stafa tölu á ársgrundvelli, þá hefur hún tilhneigingu til þess að verða þrálát í langan tíma í kjölfarið.
Ef 8. áratugur síðustu aldar er okkur einhver lærdómur þá voru ákveðnar eignir sem stóðust þessa prófraun betur en aðrar og héldu kaupmætti. Gull og hrávörur komu hvað best úr þessu tímabili. Ástæðan er sú að þessir eignaflokkar eru til í takmörkuðu magni og ekki er hægt að auka framboð þeirra nema með miklum tilkostnaði. Þetta er algjör andstæða við hefðbundna gjaldmiðla og kröfur á greiðslur í viðkomandi gjaldmiðlum sem við köllum almennt skuldabréf.
Í aðdraganda 8. áratugarins juku seðlabankar margra stærstu ríkja heims við fjárfestingar sínar í gulli sem leiddi meðal annars af sér að Bandaríkin hörfuðu frá því að binda gengi dollarans við gull þegar Bretton Woods kerfið leið undir lok árið 1971. Í dag sjáum við sama kaupáhuga seðlabanka á gulli en á nokkrum árum hafa seðlabankar heimsins farið úr því að kaupa um 10% af árlegri gullframleiðslu heimsins upp í 30%. Þetta er gríðarmikið stökk á stuttum tíma og gefur vísbendingu um hvaða tímar gætu verið í uppsiglingu.
Nýr eignaflokkur í breyttu fjárfestingarumhverfi
Á þessari öld hefur síðan bæst við nýr eignaflokkur sem má telja líklegt að muni bætast við framangreindan hóp eigna en það eru rafmyntir, og þá sérstaklega Bitcoin. Bitcoin er sjaldgæfasta eignin af þessum öllum sem rætt er um hér að framan og ekki hægt að auka fjölda eininga umfram fyrirfram skilgreinda útgáfuáætlun. Sú staðreynd að meirihluti stærstu eignastýringarfélaga í heimi eru byrjaðir að bæta þessum eignaflokki við vöruframboð sitt segir margt um hversu viðurkenndur þessi eignaflokkur er orðinn.
Í dag sjáum við sama kaupáhuga seðlabanka á gulli en á nokkrum árum hafa seðlabankar heimsins farið úr því að kaupa um 10% af árlegri gullframleiðslu heimsins upp í 30%.
Í dag ættu fjárfestar því ekki bara að spyrja sig hvar fæ ég bestu ávöxtunina - heldur hvernig get ég varið kaupmátt eigna minna sem best í því óvissuumhverfi sem er framundan? Látum því orð Mark Twain okkur að kenningu verða, stöldrum við og veltum fyrir okkur hvort fjárfestingarumhverfið sé mögulega að breytast meira en við áttum okkur á.
Höfundur er fjárfestingastjóri og meðstofnandi Viska Digital Assets ehf.