Innlent

Fjár­munum sóað og á­ætlaður sparnaður vegna Micros­oft-samnings ekki skilað sér

Atli Ísleifsson skrifar
Bjarni Benediktsson var fjármála- og efnahagsráðherra þegar samningurinn við Microsoft var undirritaður árið 2018.
Bjarni Benediktsson var fjármála- og efnahagsráðherra þegar samningurinn við Microsoft var undirritaður árið 2018. Vísir/Vilhelm

Umfang þeirra breytinga sem samningur, sem íslenska ríkið gerði við Microsoft árið 2018, var vanmetið og innleiðing þeirra lausna sem samið var um dróst á langinn. Þá hafi fjármunum verið sóað og fjármála- og efnahagsráðuneytið ekki getað sýnt fram á að sá fjárhagslegi ávinningur sem að var stefnt í tengslum við samninginn, eða 5,5 milljarðar króna á ári frá árinu 2023, hafi skilað sér.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri úttekt Ríkisendurskoðunar um samning ríkisins við Microsoft sem embættið kynnti fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í gær.

Umfang breytinga vanmetin og innleiðing dróst á langinn

Á vef Ríkisendurskoðunar segir að þótt umræddur samningur við Microsoft, sem var undirritaður 1. júní 2018, hafi skilað ávinningi fyrir stofnanir og ríkið í heild hafi undirbúningi og innleiðingu hans verið verulega ábótavant. Umfang breytinganna sem samningurinn fól í sér hafi hins vegar verið vanmetið og innleiðing lausna sem samið var um hafi dregist á langinn.

Þá segir að það ávinningsmat sem kynnt hafi verið af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytis í upphafi verkefnisins hafi ekki reynst nothæft til að leggja hlutlægt mat á raunverulegan árangur.

Fjármunum sóað

Samningurinn fól í sér hugbúnaðarleyfi fyrir A-hluta stofnanir íslenska ríkisins, en gerðir voru tveir samningar, annar fyrir menntastofnanir og hinn fyrir almennar A-hluta stofnanir. Samningarnir voru endurnýjaðir til fimm ára vorið 2021.

„Í úttektinni kemur fram að fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi ekki getað sýnt fram á að sá fjárhagslegi ávinningur sem að var stefnt, þ.e. 5,5 ma.kr. árlegur sparnaður frá og með árinu 2023, hafi skilað sér. Við innleiðingu samningsins hafi komið upp tilfelli þar sem fjármunum var sóað og að enn séu uppi álitamál vegna öryggis- og persónuverndarsjónarmiða.

Ríkisendurskoðun vekur athygli á að með innleiðingu heildarsamnings milli ríkisins og Microsoft var vikið frá því dreifstýrða fyrirkomulagi sem hefur einkennt upplýsingatæknimál ríkisstofnana síðustu áratugi. Þess í stað hafa innkaup, stefnumótun og tilhögun upplýsingatæknimála hvað snýr að hefðbundnum skrifstofuhugbúnaði allra ríkisstofnana verið færð á eina hendi. Með því hafa skapast tækifæri til stærðarhagkvæmni í innkaupum og aukinnar samhæfingar og samvinnu milli ólíkra stofnana og ráðuneyta. Athygli vekur hversu takmarkaðan stuðning ríkisstofnanir telja sig hafa fengið frá fagráðuneytum sínum í svo viðamiklu og viðkvæmu breytingarferli.

Í skýrslunni eru lagðar fram sjö ábendingar í garð fjármála- og efnahagsráðuneytis sem snúa m.a. að nauðsyn þess að skýra ábyrgðarmörk, stuðla að hagkvæmni í rekstri ríkisins og mikilvægi vandaðs og skjalfests undirbúnings samningagerðar af þessum toga. Þá telur Ríkisendurskoðun til mikils að vinna að áfram verði unnið að því að tryggja miðlun þekkingar og samvinnu milli rekstraraðila þeirra skýjageira sem reknir eru innan samningsins við Microsoft og að þróun hugbúnaðarumhverfis ríkisins innan hans sé notendadrifin,“ segir í tilkynningu Ríkisendurskoðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×