Innlent

Talinn hafa stefnt fólki í lífs­hættu með því að aka vís­vitandi á annan bíl

Jón Þór Stefánsson skrifar
Atvikið sem málið varðar átti sér stað á Hringveginum í Hamarsfirði á Suðausturlandi.
Atvikið sem málið varðar átti sér stað á Hringveginum í Hamarsfirði á Suðausturlandi. Vísir/Vilhelm

Framhald aðalmeðferðar fer fram í Héraðsdómi Suðurlands í dag í máli manns sem er grunaður um að keyra bíl sínum vísvitandi á annan bíl og lagt líf fólks sem var í þeim bíl í hættu.

Atvikið sem málið varðar átti sér stað þann fyrsta febrúar í fyrra á Hringveginum, nánar tiltekið í sunnanverðum Hamarsfirði nokkru sunnan við brúna yfir Hamarsá.

Manninum er gefið að sök að hafa ekið bíl sínum á annan bíl. Bílarnir hafi báðir ekið í sömu akstursstefnu, en maðurinn ekið á mikilli ferð og ekið vísvitandi á hinn bílinn.

Í hinum bílnum voru tvær manneskjur sem báðar hlutu einhverja áverka. Annað þeirra fékk eymsli í nefi og hin eymsli og stirðleika í hálsinum.

Framhald aðalmeðferðar málsins fer fram í Héraðsdómi Suðurlands í dag.Vísir/Vilhelm

Tilefnislaus og vísvitandi árekstur

Í ákæru sem fréttastofa hefur undir höndum er verknaðinum lýst sem ófyrirleitnum. Þá segir að hann hafi stefnt lífi og heilsu fólksins í augljósa hættu með árekstrinum, en hann á að hafa verið tilefnislaus. Líkt og áður segir er því líka haldið fram að áreksturinn hafi verið vísvitandi af hálfu mannsins.

Fram kemur að í blóði mannsins hafi mælst 1,99 prósent vínandamagn. Samkvæmt umferðarlögum myndi hann þá teljast óhæfur til að stjórna bifreið.

Fólkið sem lenti í árekstrinum krefst hvort um sig tveggja milljóna króna frá manninum. Ákæruvaldið krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar. Þá verði hann sviptur ökuréttindum og gert að greiða sakarkostnað málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×