Í hugleiðingum veðurfræðings segir að það verði heldur hægari vindur og bjartviðri norðan heiða. Hiti á landinu verður á bilinu tvö til tólf stig.
Það bætir svo í vind á Suður- og Suðvesturlandi í kvöld og taka þá gular viðvaranir taka gildi vegna hvassviðris eða storms. Má þannig búast við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 35 metrum á sekúndu, einkum á Kjalarnesi, við Hafnarfjall, undir Eyjafjöllum og á sunnanverðu Reykjanesi.

Viðvaranirnar eru í gildi fram á annað kvöld.
Áframhaldandi suðaustan hvassviðri eða stormur á morgun og bætir heldur í úrkomu um sunnan- og vestanvert landið.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Suðaustan 13-23 m/s, hvassast við suðurströndina. Rigning, talsverð suðaustantil, en bjartara og þurrt að kalla norðantil. Hiti 5 til 12 stig.
Á föstudag: Suðaustlæg átt, 8-13 m/s, en 13-18 norðaustantil. Rigning, talsverð suðaustanlands, en dregur úr úrkomu um vestan- og norðanvert landið síðdegis. Hiti 6 til 12 stig.
Á laugardag: Suðaustlæg átt með rigningu, en bjartviðri fyrir norðan. Hiti 5 til 10 stig.
Á sunnudag og mánudag: Hæg austlæg eða breytileg átt og víða dálitlar skúrir. Kólnar í veðri.
Á þriðjudag: Útlit fyrir suðlæga átt með rigningu eða slyddu, en bjart norðaustantil.