„Við erum að finna fyrir veðrinu núna. Það er talsvert rok orðið í Eyjum og búið að boða út björgunarsveitina þar vegna foktjóns,“ segir Jón Þór Viglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.
„Það eru fastir bílar í Bröttubrekku og ófærð þar, sem er búið að boða björgunarsveit í úr Búðardal. Þannig að við erum byrjuð að finna fyrir því að þetta veður er að ganga yfir.“
Viðvaranir eru í gildi þar til klukkan 11:00 í fyrramálið á Suðausturlandi. Á Austurlandi klárast veðrið klukkan 10:00 í fyrramálið, á Norðurlandi klukkan 06:00 og á Vestfjörðum og á Vesturlandi klukkan 02:00 í nótt.
Jón Þór segir björgunarsveitir í biðstöðu. Farið hafi verið í tvö útköll í dag, meðal annars í Bolungarvík þar sem bátur hafi slitnað frá bryggju.