Skoðun

Eru sum sjálfs­víg þolan­legri en önnur?

Ásdís Bergþórsdóttir skrifar

Fagstjóri sálfræðiþjónustu Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu skrifar pistil um sjálfsvíg í Vísi í dag og hvað heilsugæslan er að gera til að koma í veg fyrir þau. Hún tekur fram að „mikilvægt er að hægt sé að vísa í viðeigandi meðferð ef [sjálfsvígs]matið bendir til undirliggjandi geðheilbrigðisvanda þar sem ómeðhöndlaður geðheilbrigðisvandi getur leitt til versnunar á einkennum.“

Ég veit varla hvort ég á að hlæja eða gráta. Það vita allir sem vilja vita að heilsugæslan vísar einhverfum frá geðheilbrigðisþjónustu. Ekki alveg öllum er vísað frá en það heyrir til algjörar undantekningar ef fólk kemst að. Fólki hefur jafnvel verið vísað frá geðheilbrigðisþjónustu heilsugæslunnar vegna gruns um einhverfu. Það er sem sagt rétt að það er hægt að vísa einhverfum í meðferð í geðheilsuteymi eða í viðtöl á heilsugæslu en þeim er vísað frá vegna þess að ekki er til næg þekking á einhverfu.

Það er til mikilsvirt rannsókn frá Svíþjóð sem sýnir fram á að næstum því tíu sinnum fleiri einhverfir látast af völdum sjálfsvíga en þeir sem eru ekki einhverfir. Ég endurtek einhverfir eru næstum tíu sinnum líklegri að deyja af völdum sjálfsvíga en óeinhverfir. Af þessum tölum er ljóst að þörf einhverfra eftir þjónustu er gífurleg. Samt er þeim neitað um geðheilbrigðisþjónustu í heilsugæslunni sökum vanþekkingar starfsmanna.

Skoðum aðeins hvernig líkamlega heilbrigðiskerfið virkar. Ímyndum okkur að upp komi nýr veirusjúkdómur sem enginn hafi þekkingu á af því að hann er nýr. Köllum hann COVID-19. Hvað myndi gerast í heilbrigðiskerfinu? Myndi heilbrigðiskerfið vísa fólki frá í stórum stíl og segja við þekkjum þetta ekki? Nei, það var ekki það sem það gerðist. Í því tilfelli voru mannslíf metin svo mikils að fólk lagði á sig vinnu til finna út hvað ætti að gera.

Það er í hæsta máta óeðlilegt að neita fólki um geðheilbrigðisþjónustu á grundvelli fötlunar, skerðingar eða frávika frá hefðbundnum þroska og er mannréttindabrot.

Höfundur er sálfræðingur




Skoðun

Sjá meira


×