Handbolti

Jafnt í Ís­lendinga­slag og gott gengi Melsun­gen heldur á­fram

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon
Ómar Ingi Magnússon

Íslendingaliðin Leipzig og Magdeburg gerðu jafntefli í spennandi leik í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik í dag. Þá er Melsungen áfram á sigurbraut.

Fyrir leikinn í dag hafði Melsungen unnið sigur í öllum leikjum sínum í þýsku úrvalsdeildinni til þessa og meðal annars lagt meistara Kiel að velli.

Í dag mætti liðið Lemgo á útivelli og leiddi nánast frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Lemgo tókst reyndar að jafna metin í 19-19 um miðjan síðari hálfleik en Melsungen var ekki lengi að svara og tryggði sér sanngjarnan sigur í lokin.

Lokatölur 28-25 og Melsungen því áfram í efsta sæti deildarinnar. Elvar Örn Jónsson skoraði sex mörk fyrir Melsungen í dag. Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað en lét til sín taka í vörninni og var einu sinni rekinn út af í tvær mínútur.

Í Leipzig var síðan sannkallaður Íslendingaslagur. Rúnar Sigtryggsson er þjálfari heimaliðsins og Andri Már sonur hans sem og Viggó Kristjánsson leikmenn liðsins. Magdeburg var í heimsókn en þar eru á mála Ómar Ingi Magnússon, Janus Daði Smárason og Gísli Þorgeir Kristjánsson en sá síðastnefndi er frá vegna meiðsla.

Magdeburg byrjaði mun betur, komst í 10-4 í upphafi og leiddi 15-10 í hálfleik. Heimaliðið svaraði hins vegar fyrir sig í síðari hálfleik. Þeir minnkuðu muninn jafnt og þétt og tókst loks að jafna metin í 26-26 þegar rúmar fimm mínútur voru eftir.

Lokamínúturnar voru æsispennandi. Leipzig komst í 27-26 en Ómar Ingi jafnaði fyrir Magdeburg þegar rúm mínúta var eftir. Bæði lið fengu sóknir til að skora sigurmarkið en tókst ekki. Lokatölur 27-27.

Viggó skoraði sex mörk fyrir Leipzig í dag og Andri Már tvö. Ómar Ingi skoraði fimm mörk fyrir Magdeburg og Janus Daði eitt. Magdeburg er í þriðja sæti deildarinnar eftir jafntefið en Leipzig í þrettánda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×